Um sex hundruð þúsund Filippseyingar sem urðu fyrir tjóni af völdum fellibylsins Haiyan hafa ekki fengið neina aðstoð, ellefu dögum eftir að hamfarirnar riðu yfir, samkvæmt upplýsingum frá World Food Programme.
Ertharin Cousin, framkvæmdastjóri World Food Programme, segir að stofnunin hafi náð að senda neyðarbirgðir, svo sem hrísgrjón og orkukex til um 1,9 milljón íbúa landsins. En gera má ráð fyrir að 2,5 milljón íbúa á hamfarasvæðinu þurfi á neyðaraðstoð að halda. „Það er enn gríðarlegur fjöldi sem við höfum ekki enn náð til,“ segir hún og bætir við að áfram verði reynt að koma matvælum og öðrum hjálpargögnum til þeirra sem eru í nauð.