„Selfie“ orð ársins

„Selfie“ er orð ársins að mati orðabókar Oxfordháskóla. Orðið er notað um það þegar fólk tekur mynd af sjálfu sér og birtir hana svo á netinu. Orðið var lítið notað þar til í fyrra og í ár er það á allra vörum, segja ritstjórar orðabókarinnar.

Sérfræðingar segja að orðið hafi komið fyrir í enskri tungu 17.000% oftar í ár en í fyrra.

Orðið „twerk“ sem söngkonan Miley Cyrus hefur verið iðin við að nota, kom einnig til greina. Þá var orðið „binge-watch“ sem notað er um þá athöfn að horfa mjög mikið á sjónvarp, einnig ofarlega á lista orðabókarinnar.

Árið 2008 við upphaf efnahagshrunsins var orð ársins „credit crunch“ eða „lánakrísa“.

Til að koma til greina sem orð ársins þarf viðkomandi orð að hafa verið sérstaklega mikið notað og áberandi á undanförnum tólf mánuðum.

Orðið „selfie“ eða „sjálfa“ er skilgreint af Oxford-orðabókinni sem ljósmynd sem einhver tekur af sjálfum sér, oftast með snjallsíma eða vefmyndavél og birtir svo á netinu.

Til að meta útbreiðslu orðsins skoðuðu sérfræðingar orðabókarinnar um 150 milljón ensk orð sem notuð voru á netinu í hverjum mánuði. Forritið sem var notað getur fundið ný orð og fylgst með útbreiðslu þeirra og tíðni í rituðu máli.

Orðið „selfie“ er rakið aftur til ársins 2002 en þá var það notað á áströlskum spjallþræði, að sögn sérfræðinga orðabókarinnar. Karlmaður birti þar mynd af andliti sínu sem var blátt og marið eftir að hann hrasaði í tröppum. Hann baðst afsökunar á því að myndin væri ekki skýr þar sem hann hefði tekið hana undir áhrifum áfengis og að um væri að ræða „selfie“.

Judy Pearsall, ritstjóri Oxford orðabókarinnar, segir að samfélagsmiðlar hafi orðið jarðvegur fyrir vinsældir orðsins. Þó að það hafi verið notað í um áratug var það þó fyrst á síðasta ári sem útbreiðsla þess varð almenn. Búið er að bæta orðinu í rafræna útgáfu Oxford-orðabókarinnar.

Sjá frétt BBC um orð ársins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert