Lögreglan í París leitar enn karlmanns sem skaut á aðstoðarmann ljósmyndara á ritstjórn Liberation í gærmorgun. Eins er sami maður grunaður um skothríð fyrir utan banka í fjármálahverfi Parísar, La Défense, og stuld á bifreið.
Lögreglan er mjög áberandi í borginni, við skrifstofur fjölmiðla, á Champs-Elysées breiðgötunni og við innganga í jarðlestarkerfi Parísar. Ekki hefur tekist að bera kennsl á byssumanninn, sem innanríkisráðherrann, Manuel Valls, segir mjög hættulegan.
Enn er heldur ekki vitað hvers vegna hann réðst til atlögu gegn ljósmyndaranum, sem er í lífhættu, í gær. Talið er að sá hinn sami hafi hótað starfsfólki hjá sjónvarpsstöð í París á föstudag með byssu án þess þó að skjóta.
Sá sem varð fyrir skotárásinni í gær er 27 ára aðstoðarmaður ljósmyndara hjá aukablaði Liberation, Next. Var þetta fyrsti vinnudagurinn hans.
Talið er að árásarmaðurinn hafi flúið frá skrifstofu Liberation í austurhluta Parísar yfir í Lan Défense hverfið þar sem hann skaut nokkrum skotum fyrir utan höfuðstöðvar Société générale bankans. Þar rændi hann bíl og neyddi bílstjórann til þess að setja sig út við Champs-Elysées breiðgötuna í miðborg Parísar um miðjan dag í gær en síðan hefur ekkert spurst til hans.
Að sögn lögreglu virðast myndskeið úr öryggismyndavélum benda til þess að sami maðurinn hafi komið inn í höfuðstöðvar fréttastöðvarinnar BFMTV og hótað starfsfólki með byssu og sagt að næst myndi hann hitta.
Á fundi með blaðamönnum síðdegis í gær var gefin út lýsing á manninum, hann væri evrópskur í útliti og á aldrinum 35-45 ára. Meðalmaður á hæð og krúnurakaður.
Framkvæmdastjóri Liberation, Nicolas Demorand, segir starfsfólk blaðsins í áfalli. „Þegar einhver kemur inn á skrifstofu dagblaðs vopnaður haglabyssu er það mjög alvarlegt. Skiptir þar engu hvert andlegt ástand viðkomandi er,“ sagði Demorand í viðtali við AFP.
Leiðari Liberation í dag er ritaður af Demorand og fyrirsögnin er: Við höldum áfram.
Á forsíðunni segir: „Hann tók upp byssuna og skaut tvisvar en alls eru fjórar síður blaðsins lagðar undir árásina. Allir helstu fjölmiðlar Frakklands fjalla um árásina bæði í gær og í dag.