1,7 milljón barna á vergangi

Salernisaðstaða, hreinlætispakkar og hreinlætisgögn eru meðal þeirra hjálpargagna sem UNICEF …
Salernisaðstaða, hreinlætispakkar og hreinlætisgögn eru meðal þeirra hjálpargagna sem UNICEF hefur flutt til Tacloban. Unicef

Fjöldi barna á Filippseyjum sem er á vergangi hefur nú náð 1,7 milljón. Fjölskyldur flýja þau svæði sem verst urðu úti og leita að skjóli. Neyðin er sár og mikilvægt er að koma hjálp til fólks sem allra fyrst. Hjálparstarfi UNICEF á Filippseyjum miðar vel og seinustu daga hefur stanslaus dreifing hjálpargagna átt sér stað.

Yfir 200.000 manns hafa nú aðgang að hreinu drykkjarvatni í Tacloban þökk sé samstarfi UNICEF, annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna og stjórnvalda á staðnum. Að auki hafa tæplega 50.000 manns í Cebu og Capiz fengið aðgang að drykkjarhæfu vatni.

Lyfjum og sjúkragögnum sem nýtast nærri 100.000 manns hefur verið dreift í Tacloban, Roxas og Ormoc og 18.000 manns hafa fengið nauðsynleg hreinlætisgögn. Auk þess hefur UNICEF komið upp salernisaðstöðu í neyðarskýlum á svæðinu. Í Guiuan, þar sem fellibylurinn gekk á land, hafa 10.000 manns fengið vatnsílát og töflur til að gera vatn öruggt til drykkjar.

Í dag verður sápum, salernispappír og öðru sem nauðsynlegt er til að tryggja hreinlæti og koma í veg fyrir útbreiðslu farsótta dreift til 1.000 fjölskyldna í Cebu. Miklu magni annarra nauðsynja verður útdeilt í dag og hefur verið dreift seinustu daga. Enn fleiri hjálpargögn eru auk þess á leiðinni.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi er enn í fullum gangi. Hægt er að leggja hjálparstarfi UNCEF lið með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 og styrkja þannig söfnunina um 1900 krónur.

Bóluefni fyrir öll börn

Fellibylurinn Hayian var einn öflugasti fellibylur sem gengið hefur á land í sögunni. Meira en ein milljón heimila eyðilögðust í hamförunum og yfir fimm milljónir barna urðu fyrir verulegum áhrifum.

UNICEF áætlar að tæplega helmingur heilsugæslustöðva sé óstarfhæfur á þeim svæðum sem samtökin hafa þegar náð að meta. Alls eru 628 skólar eyðilagðir og 893 skólar gegna nú hlutverki neyðarskýla fyrir fólk á flótta. 

„Mikill gangur er í hjálparstarfinu og við náum sífellt að koma fleiri börnum til hjálpar. Þörfin er hins vegar gríðarleg og mikið starf óunnið,“ er haft eftir Stefáni Inga Stefánssyni, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, í fréttatilkynningu.

„Allt okkar starf byggist á frjálsum framlögum og því er frábært hversu margir hafa lagt okkur lið nú þegar. Við vonum sannarlega að það haldi áfram.“

Gríðarleg eyðilegging blasir víða við á Filippseyjum.
Gríðarleg eyðilegging blasir víða við á Filippseyjum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert