Kominn til meðvitundar

Franska lögreglan leitar enn manns sem skaut ljósmyndara á ritstjórnarskrifstofu Libération í París á mánudag. Víðtæk leit hefur staðið yfir að manninum í tæpa þrjá sólarhringa en ekkert hefur spurst til hans síðan síðdegis á mánudag.

Árársarmaðurinn er einnig grunaður um að hafa hleypt af fyrir utan höfuðstöðvar Société Générale bankans í La Défense hverfinu í París. Þar lét hann mann keyra sig á Champs-Elysées breiðgötuna þar sem hann lét sig hverfa inn í neðanjarðarlest.

Ljósmyndarinn, sem er 27 ára, slasaðist lífshættulega í árásinni en hann komst til meðvitundar í gærkvöldi, samkvæmt frétt Libération. Meiðsli hans eru mjög alvarleg en er ekki lengur í lífshættu. Hann er á gjörgæsludeild.

Lögregla hefur leitað árásarmannsins um alla Parísarborg. Vopnaðir verðir eru við alla fjölmiðla í París og eins við Champs-Elysées og innganga inn í neðanjarðarlestarkerfið.

Enn hafa ekki verið borin kennsl á manninn en lögreglu hafa borist fleiri hundruð ábendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert