Kínversk stjórnvöld hafa ákveðið að senda sérútbúið sjúkraskip til Filippseyja vegna hamfaranna sem urðu í landinu fyrr í þessum mánuði en ákvörðunin kemur í kjölfar mikillar gagnrýni á ráðamenn í Beijing fyrir að bregðast seint og illa við alþjóðlegu ákalli um aðstoð við Filippseyinga.
Fram kemur á fréttavef Reuters að utanríkisráðuneyti Kína hafi staðfest í gær að skipið, Friðarörkin, yrði sent til Filippseyja til þess að aðstoða við björgunarstörf. Um leið var tilkynnt að fyrstu neyðarbirgðir frá Kínverjum hefðu skilað sér til landsins. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvar skipið tekur til starfa eða hvenær það kemur til Filippseyja en haft er eftir talsmanni utanríkisráðuneytisins í fréttinni að skipið legði úr höfn strax og það yrði mögulegt.
Ennfremur er haft eftir talsmanninum að Kínverjar hafi alltaf stefnt að því að koma Filippseyingum til hjálpar. Rifjað er hins vegar upp í fréttinni að spenna hafi einkennt samskipti ríkjanna undanfarna mánuði vegna deilna um hafsvæði í Suður-Kínahafi. Stjórnvöld á Filippseyjum hafi þannig kært Kínverja til Sameinuðu þjóðanna vegna málsins.
Hins vegar hafi Bandaríkin til samanburðar sent um 50 skip og flugvélar til Filippseyja til þess að aðstoða við björgunarstörf og eyrnamerkt rúmlega 37 milljónir dollara vegna mannúðarstarfa í landinu.