Í anda Bonnie og Clyde

Maðurinn sem franska lögreglan handtók í gær í tengslum við skotárásir í París heitir Abdelhakim Dekhar og hefur setið í fangelsi fyrir hlutdeild sína í morðum sem þóttu mjög í anda Bonnie og Clyde á sínum tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu passa lífsýni úr honum við lífsýni sem fundust á ritstjórn dagblaðsins Libération í París þar sem ljósmyndari var særður alvarlega í skotárás á mánudag. Eins var skotið af haglabyssu fyrir utan höfuðstöðvar banka í La Défense-hverfinu. Þar rændi hann bíl og neyddi bílstjórann til þess að setja sig út við Champs-Elysées-breiðgötuna í miðborg Parísar. Eins benda lífsýni til þess að hann hafi einnig farið inn í höfuðstöðvar fréttastöðvarinnar BFMTV á föstudag og hótað starfsfólki með byssu og sagt að næst myndi hann hitta.

Dekhar, sem er 49 ára að aldri, var handtekinn í bílakjallara í Bois-Colombes-hverfinu í útjaðri Parísar klukkan 19 að staðartíma, 18 að íslenskum tíma, í gær. Hann hafði reynt að fremja sjálfsvíg, samkvæmt því sem fram kom á blaðamannafundi Valls seint í gærkvöldi. Hann var rænulítill þegar lögreglan kom á staðinn og er nú á sjúkrahúsi undir eftirliti lögreglu. Ekki er hægt að yfirheyra hann að svo stöddu.

Fjórir lágu í valnum auk Maupins

Dekhar var dæmdur árið 1998 fyrir að hafa keypt byssu í október 1994 sem var notuð í skotárásum háskólanemans Florence Rey og unnusta hennar Audrys Maupins. Þau myrtu þrjá lögreglumenn og leigubílstjóra.

Rey og Maupin tengdust hreyfingu stjórnleysingja en þau reyndu að stela vopnum og rændu síðan leigubíl á flóttanum. Á flóttanum skutu þau þrjá lögregluþjóna og leigubílstjórann til bana en sögu þeirra er oft líkt við söguþráð bandarísku kvikmyndarinnar Natural Born Killers.

Hann var handtekinn eftir að lögregla birti nýja mynd af honum og hafði maður samband við lögreglu eftir það.

Dekhar er talinn hafa verið þriðji maðurinn í Bonnie og Clyde-máli þeirra Frakka. Við réttarhöldin árið 1998 lýstu vitni því að unga parið, sem framdi árásirnar, hefði litið á hann sem leiðtoga sinn. Var hann sakaður um að notfæra sér það og fá þau til að gera ýmsa hluti fyrir sig. Í byrjun tíunda áratugarins var hann tengdur starfsemi öfgavinstrimanna og fylgdist lögregla með honum á þeim tíma.

Maupin lést af völdum sárum sinna í skotbardaga við lögreglu en Rey var dæmd í 20 ára fangelsi. Hún var látin laus árið 2009. Dekhar var sýknaður af ákæru fyrir vopnaða árás en dæmdur sekur um að hafa útvegað vopnið. Hann var eins og áður sagði dæmdur í fjögurra ára fangelsi árið 2008 en látinn laus fljótlega þar sem hann hafði nánast lokið afplánun þegar dómur féll loks.

Að sögn Valls bendir allt til þess að Dekhar hafi í kjölfarið yfirgefið Frakkland og dvalið erlendis í nokkur ár.

Frétt Libération um málið og þar er hægt að lesa upprifjun á málinu frá tíunda áratugnum

 Upprifjun Le Figaro

Úr bílakjallaranum þar sem Dekhar fannst
Úr bílakjallaranum þar sem Dekhar fannst AFP
AFP
HO
Dekhar er á Bichat-Beaujon sjúkrahúsinu í Clichy
Dekhar er á Bichat-Beaujon sjúkrahúsinu í Clichy AFP
Manuel Valls á blaðamannafundinum í gærkvöldi
Manuel Valls á blaðamannafundinum í gærkvöldi AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert