Byssumaðurinn ákærður

Abdelhakim Dekhar.
Abdelhakim Dekhar. AFP

Saksóknarar í Frakklandi hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni sem stóð á bak við byssuárásir í París, höfuðborg Frakklands. Maðurinn er ákærður fyrir morðtilraun og fyrir mannrán.

Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins og segir að ákæran hafi verið gefin út til bráðabirgða.

Maðurinn, sem heitir Abdelhakim Dekhar, var handtekinn í bílakjallara í París á miðvikudag í kjölfar umfangsmikillar leitar lögreglu að honum.

Hann er grunaður um að hafa haft í hótunum við forsvarsmenn sjónvarpsstöðvar fyrir viku og á mánudag fór hann inn á skrifstofur dagblaðs þar sem hann hóf skothríð og særði ljósmyndara lífshættulega. Hann hóf einnig skothríð fyrir utan skrifstofur banka í borginni. 

Saksóknarar segja að lífsýni úr Dekhar, sem er 48 ára, passi við lífsýni sem fundust á vettvangi glæpanna. 

Lögmaður hans segir að brotið hafi verið gegn þeirri reglu að skjólstæðingur sinn teljist vera saklaus uns sekt hans sé sönnuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert