Lygar, samsæri og „auralaus“ auðjöfur

Breski auðjöfurinn Scot Young.
Breski auðjöfurinn Scot Young. AFP

Skilnaður Scot og Michelle Young vakti mikla athygli í Bretlandi. Hann stóð yfir í áraraðir og þótti einstaklega hatrammur. Deilan fór fyrir yfirrétt í Bretlandi þar sem dómarinn komst m.a. að þeirri niðurstöðu að auðjöfurinn Scot Young væri lygari og Michelle Young smíðaði samsæriskenningar.

Scot Young, sem er 51 árs, hélt því fram að hann væri auralaus og gjaldþrota, en annað kom á daginn því auðævi hans eru metin á 40 milljónir punda (7,9 milljarða kr.). Dómarinn Philip Moor úrskurðaði að eiginkonan ætti rétt á helmingnum, að því er segir á vef Reuters.

Dómarinn sagði að málið væri afar óvenjulegt, en það hefur staðið yfir í sex ár og höfðu deiluaðilar alls mæst í réttarsal 65 sinnum.

1,3 milljarðar í lögfræðikostnað

Málið vakti mikla athygli í breskum fjölmiðlum, m.a. vegna þeirra upphæða sem deilt var um og þá naut Scot Young fjárhagslegs stuðnings frá þekktum vinum sínum. Hann hefur m.a. notið stuðnings frá milljarðamæringnum Philip Green, sem er m.a. þekktur fyrir að eiga Topshop-verslanirnar. 

Lögfræðikostnaður Michelle Young hljóðar nú upp á 6,5 milljónir punda (1,3 milljarðar kr.). Þá sat Scot Young á bak við lás og slá í hálft ár fyrir að neita að veita réttar upplýsingar um eignir sínar.

Lifðu í munaði

Scot og Michelle Young voru gift í 17 ár, eða þar til hjónabandið steytti á skeri árið 2006. Þau nutu lífsins til hins ýtrasta, bjuggu í glæsihýsum og lifðu í munaði, þökk sé fjárfestingum Scot Young í fasteignum, tækni- og sprotafyrirtækjum. 

Allt fór á versta veg þegar Scot Young hélt því fram að viðskiptaveldi sitt hefði hrunið og að hann væri auralaus og gjaldþrota, en hann sagðist standa frammi fyrir ógreiddum skuldum sem námu 28 milljónum punda (5,5 milljarðar kr.).

Hann er lygari og hún sér samsæri allsstaðar

Dómarinn sagði að það væri ómögulegt að fá það á hreint hver raunveruleg fjárhagsleg staða Scot Young væri því hann hefði logið að svo mörgum í svo langan tíma. 

Dómarinn skipaði honum að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni 20 milljónir punda í einni greiðslu innan 28 daga. 

Michelle Young hélt því fram að hið fjárhagslega hrun hefði verið sett á svið til að fela raunverulegan auð eiginmannsins og til að koma í veg fyrir að hún, og dætur þeirra tvær, fengu það sem þær ættu rétt á. Dómarinn hafnaði þessari söguskýringu. 

„Hún sér samsæri allsstaðar,“ sagði dómarinn.

Michelle Young reiddist mjög og sagði að úrskurðurinn væri til skammar. 

„Ég stend við það sem ég sagði. Hann á milljarða,“ sagði hún við fréttamenn fyrir utan dómshúsið. Hún sendi í framhaldinu frá sér skriflega yfirlýsingu þar sem hún segir að eiginmaðurinn fyrrverandi sé brjálæðingur. 

Michelle Young.
Michelle Young. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert