Harry Bretaprins og fatlaðir hermenn úr samtökunum Walking With The Wounded eru nú veðurtepptir í búðum sínum á Suðurskautslandinu er hópurinn er einn þriggja sem stefnir á hraðamet að pólnum. Íslenska fyrirtækið Arctic Trucks tekur þátt í leiðangrinum.
Bylur hefur gert hópunum erfitt fyrir og hafa þeir þurft að halda fyrir í búðunum í Novolazarevskaya á Suðurskautslandinu.
Hóparnir komu á Suðurskautslandið síðasta föstudag en þeir ætluðu að taka nokkra daga í það að aðlagast aðstæðum á svæðinu áður en keppni milli liðanna myndi hefjast.
Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að samkvæmt áætlun áttu hóparnir að halda af stað í dag til næstu búða en líklegt er að því verði frestað til morgundagsins.
Liðin þrjú sem keppa um að setja hraðamet munu fara um 320 km leið að suðurpólnum.
Er Harry prins kom út úr flugvélinni á Suðurskautslandinu á föstudag sagði hann loftslagið vekja upp slæmar minningar frá för sinni á norðurpólinn árið 2011.
„Það er ótrúlegt hvernig að á aðeins sex klukkustundum líðan manns getur farið úr því að vera nokkuð góð í það að maður fer næstum fram af brúninni og á botninn,“ sagði prinsinn við Sky-sjónvarpsstöðina er hann kom á Suðurskautslandið.
Harry og hinir hermennirnir sem taka þátt í leiðangrinum æfðu sig m.a. til fararinnar á Íslandi. Þeir vonast til þess að komast á suðurpólinn 16. desember.