Ítalskir saksóknarar fóru í dag fram á þrjátíu ára fangelsi yfir Amöndu Knox, en hún er ásamt fyrrverandi kærasta sínum Raffaele Sollecito, ákærð fyrir morð á bresku stúlkunni Meredith Kercher á Ítalíu árið 2007. Farið var fram á 26 ára fangelsi yfir Sollecito.
Know og Sollecito hafa þegar setið í fangelsi í fjögur ár vegna morðsins. Voru þau sýknuð af morðinu árið 2011. Hæstiréttur ógilti hins vegar niðurstöðu áfrýjunardómstólsins fyrr á þessu ári og bað um að réttað yrði aftur í málinu. Kercher fannst fáklædd í blóðpolli 2. nóvember árið 2007. Hún var skiptinemi við háskóla á Ítalíu.
Fyrrum kærustuparið hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Talið dómur í málinu liggi fyrir í janúar á næsta ári. Knox hefur búið í heimalandi sínu Bandaríkjunum allt frá því að hún var sýknuð af morðinu. Hún dvelur þar núna og segja sérfræðingar afar ólíklegt að hún verði framseld til Ítalíu, verði hún fundin sek í málinu.
Einn maður, Rudy Guede, afplánar nú 16 ára fangelsisdóm vegna morðsins. Saksóknarar segja hins vegar að hann hafi pottþétta fjarvistarsönnun og geti ekki hafa verið á staðnum er stúlkan var myrt.
Saksóknarinn Alessandro Crini sagði fyrir dómi í dag að niðurstaða DNA-rannsóknar á lífssýnum sem fundust á eldhúshníf á heimili Sollecitos væru afar mikilvæg í málinu og sýndu þau fram á að Sollecito og Knox hefðu stungið Kercher. Guede, maðurinn sem afplánar 16 ára dóm, hafi aftur á móti misnotað hana.