„Ég varði heilu ári í að byggja þetta hús. Yolanda eyðilagði það á aðeins fjórum klukkustundum,“ segir Rommel Garcia, sem er einn fjölda Filippseyinga sem búa erlendis og senda peninga til heimalandsins. Margir líta á þá sem þjóðhetjur og peningasendingarnar hafa reynst afar vel í náttúruhamförunum.
Filippseyingar á Íslandi eru ekki þeir einu sem taka höndum saman um að safna fé og senda heim á hamfarasvæðin, því það sama gera samfélög brottfluttra Filippseyinga, sem eru rúm milljón talsins um allan heim.
Sumir þeirra, eins og Garcia, flugu heim til að kanna afdrif eigna sinna og ástvina. Við Garcia blasti ófögur sjón við heimkomuna því draumahúsið hans sem hann byggði af eigin rammleik fyrir laun sín í vinnu erlendis er rústir einar. „Það eina sem ég get gert núna er að byggja það upp aftur. Ég er með vinnu, svo ég get gert það.“
Alþjóðlegar björgunarsveitir segja að tjónið á hamfarasvæðunum sé yfirþyrmandi. Þeir segjast ekki standa undir því að veita nauðsynlega hjálp þeim milljónum manna sem lifðu hamfarirnar af en misstu heimili sín þegar heilu bæirnir jöfnuðust við jörðu.
Í þessum erfiðleikum hafa brottfluttir Filippseyingar reynst nauðsynleg líflína. Um 10% þjóðarinnar býr í öðrum löndum. Mörg þeirra vinna verkamannavinnu í láglaunastörfum, en senda eins mikið af tekjunum og þau geta heim.
Flest þeirra hafa neyðst til að flytja burt frá Filippseyjum af efnahagslegum ástæðum, því þrátt fyrir hagvöxt síðustu ára eru Filippseyjar enn gríðarlega fátækt land og peningasendingar að utan hafa lengi verið mikilvæg stoð í hagkerfinu.
Árlega senda brottfluttir Filippseyingar ríflega 21 milljón Bandaríkjadala í peningasendingum. Það nemur um 10% af landsframleiðslu. Straumur peningasendinga verður enn stríðari en venjulega í kjölfar náttúruhamfara, eins og þeirra sem nú skildu samfélagið eftir í lamasessi.
Síðustu ár hefur orðið 13-14% aukning peningasendinga á mánuðunum eftir að mannskæðir fellibyljir ganga yfir, en það gerist reglulega. Fellibylurinn Haiyan, sem heimamenn kalla Yolanda, er þó sá sterkasti sem nokkurn tíma hefur mælst.
Í borginni Tacloban standa eftirlifendur í röð við útibú fyrir peningasendingar og taka út peninga sem þeir hafa fengið senda frá dætrum og sonum, bræðrum og systrum um allan heim.
Einn þeirra er Teudolfo Barmisa, sem blaðamaður Afp hitti. Hann fékk sem nemur 600 Bandaríkjadölum senda frá dóttur sinni sem er herbergisþerna í Hong Kong. „Peningarnir fara fyrst og fremst í að kaupa mat en einnig í nauðsynlega hluti svo við getum byggt heimili okkar að nýju, eins og við og sement,“ segir Barmisa.
Eins og mbl.is hefur sagt frá búa um 1500 Filippseyingar á Íslandi og eru um 70% þeirra frá hamfarasvæðunum. Filippseyingar á Íslandi hafa staðið fyrir söfnunum fyrir heimalandi sínu, m.a. í gegnum Unicef.