Ekki glæpur að vera heimskur

Á þessari mynd sem gekk manna á milli á netinu …
Á þessari mynd sem gekk manna á milli á netinu má sjá piltana tvo bera stúlkuna rænulausa á milli sín.

Ákærur gegn fjórum fullorðnum vegna aðkomu þeirra að nauðgunarmáli í smábænum Steubenville í Bandaríkjunum, eru liður í því að ljúka ákveðnum kafla málsins og gefa íbúum tækifæri til að horfa fram á veg, segir ríkissaksóknarinn í Ohio. Í gær var ákveðið að ákæra skólastjóra og þrjá aðra fyrir að ljúga og hylma yfir er tveir ungir fótboltamenn í menntaskóla nauðguðu sextán ára stúlku. 

„Þetta samfélag ætlar að leiðrétta vandamálið. Þetta samfélag er að taka völdin í málinu. Þetta samfélag ætlar að bæta hlutina. Þetta samfélag ætlar að draga fólk til ábyrgðar,“ sagði ríkissaksóknarinn Mike DeWine.

Rannsókn saksóknarans beindist að þessu sinni að glæpum sem framdir voru í tengslum við nauðgun fótboltamannanna sem stunduðu nám í Steubenville menntaskólanum. 

Tölvuhakkarar tóku virkan þátt í því að upplýsa málið með því að finna og birta myndskeið sem tekið var aðeins fáum klukkustundum eftir nauðgunina. Á því sést einn fyrrverandi nemandi skólans gera grín að fórnarlambinu. Eitt annað sönnunargagn í málinu fór sem eldur í sinu um netið: Mynd af piltunum tveir að bera rænulausa stúlkuna á milli sín. Þeir sögðu hins vegar að hún hefði ekki verið rænulaus, heldur verið að leika. Þá fannst þeim ekki undarlegt að stúlkan hafi kastað upp ítrekað um kvöldið og sögðust ekki tengja það við ofneyslu áfengis og að hún hafi af þeim sökum ekki getað gefið samþykki sitt fyrir kynmöku.

Saksóknarinn DeWine bað kviðdóminn, sem tók ákvörðunina um ákærurnar í gær, að skoða hegðun skólastjórenda og annarra fullorðinna í bænum eftir að leikmennirnir tveir voru sakfelldir fyrir nauðgunina í mars á þessu ári. Samkvæmt lögum á starfsfólk skóla að tilkynna til yfirvalda ef grunur vaknar um slæma meðferð barna. Það gerðu fjórmenningarnir sem ákærðir voru í gær ekki.

Forstöðumaður skólans, Michael McVey, er ákærður fyrir að spilla sönnunargögnum, hindra framgang réttvísinnar og fölsun. Þá er þjálfari ruðningsliðsins, Michael Belardine, ákærður fyrir að heimila ungmennum undir lögaldri að neyta áfengis, hindra framgang réttvísinnar, fölsun og að ýta undir ólæti. Lynnett Gorman, skólastjóri grunnskólans í Steubenville, er ákærð fyrir að láta farast fyrir að tilkynna misnotkun eða vanrækslu á barni.

Sá fjórði sem saksóknari ákærir er Seth Fluharty, glímuþjálfari og kennari. Honum er einnig gefið að sök að láta farast fyrir að tilkynna misnotkun eða vanrækslu á barni.

Tveir aðrir hafa þegar  verið ákærðir í málinu, yfirmaður tæknimála hjá skólunum í Steubenville fyrir að spilla sönnunargögnum, hindra framgang réttvísinnar og meinsæri. Þá er dóttir hans einnig ákærð fyrir þjófnað. 

Ma'Lik Richmond og Trent Mays voru fyrr á þessu ári sakfelldir fyrir að nauðga stúlkunni. Þeir eru báðir sautján ára. Richmond fékk eins árs fangelsisdóm sem hann afplánar í unglingafangelsi. Mays var ekki aðeins ákærður fyrir nauðgun heldur einnig að taka myndir af ofbeldinu fékk tveggja ára dóm. Hann afplánar hann í unglingafangelsi.

Vildu að fleiri yrðu ákærðir

Saksóknari og lögregla voru gagnrýnd fyrir að ákæra ekki fleiri leikmenn fyrir þátt sinn í ofbeldinu. Var lögreglan m.a. sögð hafa hylmt yfir með ruðningsliðinu á fyrstu stigum rannsóknarinnar, að því er fram kemur í frétt AP-fréttastofunnar um málið.

„Það er ekki endilega glæpur að vera ónærgætinn, illgjarn eða einfaldlega heimskur,“ sagði DeWine í gær eftir að ákvörðun var tekin um að ákæra fjóra til viðbótar í málinu og ljóst að fleiri yrðu ekki ákærðir.

Ruðningsliðið Big Red er gríðarlega vinsælt í bænum Steubenville. Liðið skiptir efnahag þessa litla bæjar, þar sem um 18 þúsund manns búa, mjög miklu máli. Bærinn var áður mikill iðnaðarbær en á undanförnum áratugum hefur störfum í iðnaði fækkað um mörg þúsund.

Hér fyrir neðan má sjá fréttaskýringu ABC-sjónvarpsstöðvarinnar um nauðgunarmálið á meðan það var enn fyrir dómi.


Smábærinn Steubenville í Ohio ríki í Bandaríkjunum.
Smábærinn Steubenville í Ohio ríki í Bandaríkjunum.
Frá mótmælum við dómshúsið í Steubenville er réttarhöldin fóru fram …
Frá mótmælum við dómshúsið í Steubenville er réttarhöldin fóru fram yfir piltunum tveimur.
Þessi mynd hefur gengið um netheima í kjölfar umfjöllunar CNN …
Þessi mynd hefur gengið um netheima í kjölfar umfjöllunar CNN um málið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert