Nigella sögð vera „síbrotamaður“

Nigella Lawson.
Nigella Lawson. mbl.is

Sjónvarpskokkinum Nigellu Lawson var lýst sem „síbrotamanni“ í dómssal í London í dag. Verjandi fyrrverandi aðstoðarkvenna hennar, sem Nigella sakar um fjársvik, sagði að hjónaband hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar einkenndist af „leyndarhyggju“.

Fram kom fyrir dóminum í gær að Nigella hefði lengi leynt fíkniefnaneyslu sinni fyrir eiginmanninum fyrrverandi, Charles Saatchi. Þau skildu fyrr á þessu ári, eftir rifrildi á veitingastað þar sem Saatchi sást taka hana hálstaki.

Ekki sögð trúverðugt vitni

Hjónin fráskildu höfuðu mál gegn fyrrverandi aðstoðarkonum Nigellu, ítölsku systrunum Francescu og Elisabettu Grillo, fyrir að nota kreditkort þeirra í leyfisleysi fyrir um 300.000 pund eða 60 milljónir króna. Grillo systurnar hafna þessum ásökunum og segja að Nigella hafi verið meðvituð um notkun þeirra á kreditkortunum.

Lögmaður þeirra, Anthony Metzer, fór fram á það í dag að málinnu verði vísað frá, með þeim rökum að systurnar fengju ekki sanngjörn réttarhöld og að Nigella væri ekki trúverðugt vitni vegna eiturlyfjaneyslu.

Metzer vísaði til tölvupósts frá Saatchi til fyrrverandi eiginkonu sinnar sem lesinn var upp í dómssalnum í gær, þar sagði: „Núna munu Grillo-systurnar komast upp með þetta af því að þú, Mimi, varst svo utan við þig vegna lyfjaneyslu að þú leyfðir þeim að eyða eins miklu og þær vildu.“

Lögmaðurinn sagði að ef það sem þarna stæði væri rétt þá þýddi það að Nigella væri síbrotamaður.

Þakkaði fyrir sig með kökuuppskrift

Málsvörn ítölsku systranna byggir á því að Nigella hafi gagngert og ítrekað logið að fyrrverandi eiginmanni sínum um eigin eiturlyfjaneyslu og um þau miklu útgjöld sem væru á kreditkortunum, vegna þess að hún óttaðist viðbrögð hans ef hann vissi sannleikann.

„Það ríkti leyndarhyggja í hjónabandi Nigellu Lawson,“ sagði lögmaðurinn.

Saksóknarinn Jane Carpenter sagði það óásættanlegan málflutning að gera mannorð Nigellu tortryggilegt í þeim tilgangi að stilla Grillo systrunum upp sem fórnarlömbum í málinu. 

Niðurstaða dómara var sú að réttarhöldunum skyldi fram haldið. 

Nigella á sér marga aðdáendur sem styðja við bakið á henni og launaði hún þeim stuðninginn á Twitter með því að birta í dag uppskrift að kryddaðri jólaköku.

Nigella þakkaði stuðningsmönnum sínum á Twitter með uppskrift að kryddaðri …
Nigella þakkaði stuðningsmönnum sínum á Twitter með uppskrift að kryddaðri jólaköku.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert