Saka Nigellu um daglega kókaínneyslu

Nigella Lawson.
Nigella Lawson. AFP

Fyrrverandi aðstoðarkonur sjónvarpskokksins Nigellu Lawson segja hana hafa haldið fíkniefnanotkun sinni leyndri fyrir fyrrverandi eiginmanni sínum. Nigella og eiginmaðurinn fyrrverandi, Charles Saatchi, höfðuðu mál gegn konunum fyrir að stela frá þeim umtalsverðum fjármunum.

Ímynd Nigellu hefur hingað til verið slétt og felld. Hún hefur verið kölluð breska heimilisgyðjan enda tíður gestur inni á heimilum allra landsmanna í sínum þekktu matreiðsluþáttum.

En í gær varð hún fyrir miklu höggi er meðferð fjársvikamálsins hófst fyrir dómi í London. Þar kom fram að hún hefði notað fíkniefni daglega, tekið kókaín og lyfseðilsskyld lyf í yfir áratug.

Fyrrverandi eiginmaðurinn, Saatchi, hefur nú uppnefnt Nigellu „Higellu“ í tölvupósti sem lesinn var við réttarhöldin - þar sem hún hafi oft verið í vímu.

Ásakanir um fíkniefnanotkun Nigellu eru komnar frá lögmanni aðstoðarkvennanna tveggja sem segja hana hafa haldið neyslunni leyndri frá Saatchi. 

Ítölsku systurnar Francesca og Elisabetta Grillo, sem voru aðstoðarmenn hjónanna í mörg ár, neita því að hafa svikið fé út úr Nigellu og Saatchi með því að nota kreditkort þeirra til að fjármagna einkaneyslu sína.

Ásakanir um fíkniefnaneyslu Nigellu höfðu komið fram í aðdraganda réttarhaldanna og ákvað dómarinn í málinu í gær að leyfa umræðu um þær, m.a. að tölvupóstur frá Saatchi til Nigellu um neysluna yrði lagður fram.

„Núna munu Grillo-systurnar komast upp með þetta af því að þú, Mimi, varst svo utan við þig vegna lyfjaneyslu að þú leyfðir þeim að eyða eins miklu og þær vildu,“ skrifaði Saatchi m.a. í tölvupóstinum. 

Í frétt Guardian um málið segir að tölvupósturinn staðfesti að Saatchi viðurkenni ásakanir systranna um að þær hafi fengið leyfi Nigellu til að eyða miklum peningum til að koma í veg fyrir að þær segðu honum frá fíkniefnaneyslu hennar.

Dómarinn las hluta tölvupóstsins í gær. Þá var einnig lesin yfirlýsing sem Saatchi gaf á mánudag þar sem hann sagðist hafa verið furðulostinn yfir ásökunum aðstoðarkvennanna og að hann hafi trúað þeim. Hann segist hins vegar aðeins hafa verið að velta fyrir sér hvort að Grillo-systurnar myndu nota þetta í sinni vörn.

Grillo-systurnar eru m.a. sakaðar um að hafa eytt peningum Saatchi og Nigellu til að kaupa sér hátískufatnað og flugfargjöld á fyrsta farrými.

Lawson og Saatchi eru skilin að borði og sæng. Það gerðist í sumar í kjölfar þess að myndir voru birtar í fjölmiðlum af Saatchi að taka Nigellu hálstaki. Þau voru gift í tíu ár.

Lögmaður annarrar systurinnar sagði við réttarhöldin í gær að rifrildið sem endaði með því að Saatchi réðst á Nigellu, gæti hafa verið í tengslum við fíkniefnaneyslu Nigellu. 

Lögmenn kvennanna sögðu frá því fyrir réttarhöldin að Nigella hafi ekki viljað að Saatchi vissi af fíkniefnaneyslu hennar, sérstaklega því að hún notaði kókaín. Verjandi hjónanna fyrrverandi sagði að ásakanirnar væru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Þær hafi verið settar fram ári eftir að systurnar gáfu fyrsta vitnisburð sinn í málinu eftir að þær voru handteknar.

Konurnar voru handteknar 2. ágúst á síðasta ári. Verjandinn las m.a. upp úr bréfi sem systurnar sendu Nigellu og Saatchi á þessum tíma þær sem þær sögðust vonast til þess að þau gætu fyrirgefið þeim. „Við viljum breyta rétt og bæta fyrir þetta,“ skrifuðu systurnar m.a. „Við ætluðum ekki að særa ykkur.“

Dómarinn sagði við málflutninginn í gær að lögmenn aðstoðarkvennanna stæðu við þá fullyrðingu sína að á meðan konurnar unnu hjá fjölskyldunni hefði Nigella tekið kókaín reglulega, það hafi hún gert daglega og einnig misnotað lyfseðilsskyld lyf. 

Talsmaður Nigellu vildi ekki ræða um þessar ásakanir er Guardian leitaði eftir því þar sem dómsmálið væri enn í gangi.

Nú er verið að taka upp sjónvarpsþáttinn The Taste sem sýndur verður á Channel 4 en þar er Nigella einn dómara. Þættirnir verða frumsýndir 2. janúar.

Réttarhöldin halda áfram næstu daga.

Frétt Guardian um málið

Frétt Sky um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert