Börn í Tacloban, borginni þar sem fellibylurinn Haiyan olli hvað mestri eyðileggingu, fengu í gær bólusetningu gegn mislingum og mænusótt. Þar með er fyrsti hluti bólusetningarherferðar á vegum filippseyskra stjórnvalda, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og UNICEF, hafinn.
Bólusetningar eru mikilvægur hluti af neyðarhjálp UNICEF á svæðinu. Í herferðinni verða börnin jafnframt mæld og vigtuð til að greina hugsanleg tilfelli vannæringar og veita þeim börnum meðferð. Börnin fá líka skammt af A-vítamíni sem eflir ónæmiskerfi þeirra.
Samkvæmt upplýsingum frá UNICEF mun bólusetningarherferðin mun ná til yfir 30.000 barna og fer meðal annars fram í neyðarskýlum en er einnig sinnt af heilbrigðisstarfsfólki sem ferðast um svæðið. Í herferðinni nú er sérstök áhersla lögð á að ná til yngstu barnanna.
„Börnin hér þurfa alla þá vernd og aðstoð sem völ er á,“ segir Angela Kearney sérfræðingur UNICEF í neyðaraðgerðum á Filippseyjum. „Sjúkdómar eru þögul en hættuleg ógn við heilsu barna. Við vitum hvernig má koma í veg fyrir þá og gerum allt sem við getum til að vernda heilsu barna sem nú eiga um sárt að binda.“