Charles Saatchi, fyrrverandi eiginmaður sjónvarpskokksins Nigellu Lawson, segist ekki viss um að hann trúi ásökunum um að Nigella hafa neytt fíkniefna daglega í fleiri ár. Fyrrverandi aðstoðarkonur þeirra segja að Nigella hafi notað kókaín daglega í mörg ár. Nigella og Saatchi saka konurnar um að hafa stolið af sér miklum peningum.
Þetta sagði Saatchi í dómsal í dag. Saatchi sagði einnig að hann væri furðu lostinn að persónulegur tölvupóstur sem hann sendi Nigellu um meinta fíkniefnanotkun hefði verið gerður opinber.
„Ef þú spyrð mig hvort ég vissi raunverulega hvort Nigella tæki lyf, þá er svarið nei,“ sagði hann um eiginkonuna fyrrverandi í dag.
Ítölsku systurnar Elisabetta og Francesca Grillo eru sagðar hafa notað kreditkort hjónanna til að fjármagna einkaneyslu sína. Nigella og Saatchi saka þær um að hafa eytt tæplega 700 þúsund pundum til kaupa á ferðalögum og lúxusvörum.
„Sagan sem Grillo-systurnar segja er að Nigella hafi notað kókaín í langan tíma, allt okkar hjónaband. Það sem ég var að velta fyrir mér í tölvupóstinum var hvort þær ætluðu að nota þetta í sinni vörn,“ sagði Saatchi, spurður um tölvupóstinn sem hann sendi Nigellu.
Fréttamaður Sky sagði í dag að Saatchi hefði neitað því að hafa nokkru sinni séð vísbendingar um það að Nigella hefði notað fíkniefni. Hann sagðist hafa spurt annað starfsfólk sitt að því hvort þetta væri satt.
„En ég hef aldrei, aldrei séð neitt sem bendir til þess að Nigella hafi tekið einhver lyf.“
Saatchi sagði að það hefði verið hugmynd Nigellu að láta Grillo-systurnar fá kreditkort þar sem þær hefðu séð um að versla fyrir fjölskylduna.
Þá sagði hann að þegar upp komst um eyðslu þeirra hefði hann viljað leysa málið þeirra á milli en að Nigella hefði viljað fá lögregluna til að skoða það.
Við réttarhöldin í dag kom fram að heimild Grillo-systra á kreditkortinu hafði verið hækkuð án þess að Saatchi vissi af því.