Paul Walker látinn

Paul Walker
Paul Walker AFP

Bandaríski leikarinn Paul Walker, sem þekktastur er fyrir leik í kvikmyndunum Fast & Furious lést í bílslysi í nótt fertugur að aldri.

Walker var farþegi í Porsche-bifreið sem vinur hans ók, sem einnig lést í slysinu. Missti hann stjórn á bifreiðinni á Hercules-stræti norður af Los Angeles í Kaliforníu. Walker var á leiðinni á góðgerðarsamkomu þegar slysið varð síðdegis að staðartíma.

Hann lék í öllum Fast & Furious-myndunum nema einni en sjötta var frumsýnd í maí sl. Hann fer einnig með hlutverk í kvikmyndinni Hours sem verður frumsýnd fljótlega. Jafnframt var hann að vinna að gerð sjöundu myndarinnar um hraðskreiðu bílanna.

Samkvæmt frétt Chicago Tribune varð slysið klukkan 15.30 að staðartíma. Þegar slökkvilið kom á staðinn var bifreiðin alelda og mennirnir tveir lýstir látnir. Ekki er vitað hvað olli slysinu.

Samkvæmt Twitter síðu Walker var hann á leið á góðgerðarsamkomu til styrktar fórnarlömbum hamfaranna á Filippseyjum. Samkoman var á vegum samtaka sem Walker kom á laggirnar árið 2010, Reach Out Worldwide. Samtökunum var ætlað að bregðast strax við hamförum.

Í tilkynningu frá umboðsmanni Walker er andlát hans staðfest. Samkvæmt kvikmyndavefnum IMD lætur Walker eftir sig dóttur.

Paul Walker við tökur á mynd númer tvö, Fast & …
Paul Walker við tökur á mynd númer tvö, Fast & Furious AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert