Sjónvarpskokkurinn Nigella Lawson segir að fyrrverandi eiginmaður hennar hafi hótað því að eyðileggja orðspor hennar með lygum um að hún notaði fíkniefni. Þetta kom fram í vitnisburði hennar við réttarhöldin í London í dag. Nigella og fyrrverandi eiginmaður hennar, Charles Saatchi, eru skilin en kærðu tvær aðstoðarkonur sínar fyrir umfangsmikinn fjárdrátt. Aðstoðarkonurnar hafa hins vegar ásakað Nigellu um fíkniefnaneyslu og sagt hana hafa notað fíkniefni daglega, m.a. kókaín.
Nigella segir að Saatchi hafi sagt að hún yrði að hreinsa mannorð hans - að öðrum kosti myndi hann rústa hennar, hefur BBC eftir Nigellu.
Nigella segir að ásakanir um fíkniefnanotkun hafi komið fram í réttarhöldunum nú í kjölfar sumars þar sem hún hafi verið beitt þrýstingi, misnotkun og einelti.
Hún segist hafa verið hikandi við að gefa vitnisburð í réttarhöldunum en því hafi Saatchi reiðst.
„Hann sagði við mig að ef ég svaraði honum ekki, hreinsaði ekki nafn hans, myndi hann eyðileggja mannorð mitt.“
Nigella sagði að eftir hið „ömurlega atvik á Scotts“, veitingastaðnum þar sem Saatchi sást taka hana hálstaki, hefðu ásakanir um fíkniefnanotkun hennar farið að birtast á bloggsíðum. Það hefði verið gert til að eyðileggja mannorð þeirra beggja.
Saatchi og Nigella voru gift í tíu ára en skildu nú í sumar.
Nigella sagðist hafa orðið mjög hrygg er hún frétti af því að aðstoðarkonur hennar, sem hún trúði og treysti, hefðu rænt peningum hennar.
Hún var m.a. spurð að því við réttarhöldin í dag hvort Saatchi væri skapstór. Hún svaraði því játandi. „Ég held að enginn geti neitað því að hann hefur skap,“ sagði hún og bætti við að hún hefði trúað annarri aðstoðarkonu sinni fyrir því að Saatchi tæki reiðiköst. Hann hefði þá öskrað á hana. Hún sagði aðstoðarkonu sinni að hún vissi ekki hversu lengi hún gæti þolað slíkt.