Breski sjónvarpskokkurinn Nigella Lawson játaði í dag að hafa notað kókaín. Hún hafnaði því hins vegar að hún ætti fíkniefnavanda að stríða.
Nigella bar vitni fyrir rétti í dag í máli sem hún og fyrrverandi eiginmaður hennar, Charles Saatchi höfðuðu, en þau saka tvær aðstoðarkonur sínar um að stela af þeim miklum fjármunum með því að nota kreditkort þeirra í leyfisleysi. Konurnar eru sakaðar um að hafa eytt peningum hjónanna fyrrverandi í rándýr flugfargjöld og ýmsan lúxusvarning. Þær neita báðar sök.
Nigella sagði við réttarhöldin að hún hefði tvisvar notað kókaín. Í fyrra skiptið með fyrrverandi eiginmanni sínum, John Diamond, þegar hann átti við banvæn veikindi að stríða, en hann lést úr krabbameini árið 2001. Hún sagðist sex sinnum hafa notað kókaín með honum.
Seinna skiptið hefði verið í júlí 2010 eftir að hún hefði mátt þola ofbeldi af hálfu eiginmanns síns, Charles Saatchi.
„Ég var að ganga í gegnum mjög, mjög erfiðan tíma. Mér fannst, hvernig get ég orðað þetta, að ég hafi verið undirokuð af Saatchi. Ég var algerlega einangruð, óttaslegin og óhamingjusöm.“
Nigella sagðist einnig hafa reykt kannabis, en lagði áherslu á að hún væri hætt allri fíkniefnaneyslu.
Nigella ákvað í sumar að slíta hjónabandi hennar og Saatchi eftir að myndir voru birtar af þeim á veitingahúsi þar sem hann sást taka hana hálstaki.
Nigella sagði við réttarhöldin að Saatchi hefði sagt öllum að hann hefði verið að taka kókaín úr nefi hennar þegar þau voru á veitingastaðnum. Hún sagði í dag að það væri hins vegar ekki rétt. Hann hefði misst stjórn á sér eftir að hún sá konu gagna framhjá með lítið barn. „Ég sagði: Ég hlakka til að eignast barnabörn.“ Hann tók mig þá hálstaki og sagði: „Eina manneskjan sem þú ættir að einbeita þér að er ég.“