Breski sjónvarpskokkurinn Nigella Lawson mun gefa vitnisburð sinn í dómssal í dag í fjársvikamáli hennar og fyrrverandi eiginmannsins Charles Saatchi. Hjónin hafa kært tvær aðstoðarkonur sínar fyrir að stela af þeim miklum fjármunum með því að nota kreditkort þeirra í leyfisleysi. Eru konurnar sakaðar um að hafa eytt peningum hjónanna fyrrverandi í rándýr flugfargjöld og ýmsan lúxusvarning s.s. handtöskur frá Louis Vuitton, Christian Dior og Vivienne Westwood. Nigella og Saatchi segja að aðstoðarkonurnar, sem eru systur, hafi stolið af þeim 135 milljónum króna. Konurnar neita báðar sök og hefur komið fram við réttarhöldin að þær segja að Nigella hafi notað fíkniefni daglega á meðan þær unnu hjá henni.
Saatchi kom fyrir kviðdóminn í gær og sagði að það hafi verið hræðileg mistök að einkatölvupóstur sem hann sendi Nigellu hafi verið gerður opinber við réttarhöldin. Í póstinum sakaði hann Nigellu um að hafa verið í svo mikilli vímu að hún hafi ekki getað fylgst með gjörðum aðstoðarkvennanna.
Hann sagðist enn í mikilli ástarsorg en þau Nigella eru nú að skilja. „Ég dýrka Nigellu og ég er í ástarsorg eftir að hafa misst hana. Ég vil að hún sé hamingjusöm.“
Við réttarhöldin var Saatchi m.a. spurður hvort að rifrildi þeirra, sem endaði með því að hann tók hana hálstaki á veitingastað, hafi snúist um fíkniefnaneyslu hennar svaraði hann einfaldlega: „Ég samþykkti viðvörun vegna árásarinnar. Ég var ekki að grípa í eða kyrkja hana. Ég var að halda í háls hennar til að fá hana til að einbeita sér, er það skýrt?“
Lögmaður annarrar konunnar spurði þá hvort hann hafi gert það vegna fíkniefnanotkunar Nigellu. Saatchi neitaði því.