Ekki stolt af fíkniefnaneyslunni

Fjölmiðlar í Bretlandi hafa mikið fjallað um Nigellu Lawson síðustu …
Fjölmiðlar í Bretlandi hafa mikið fjallað um Nigellu Lawson síðustu daga, en hún viðurkenndi í gær að hún hefði notað fíkniefni. FACUNDO ARRIZABALAGA

Nigella Lawson sagði fyrir dómi í dag að hún væri ekki stolt af því að hafa notað fíkniefni. Hún vildi frekar vera heiðarleg og upplýsa um skömm sína en að vera kúguð með lygum.

Margir hafa dáðst að Nigellu í gegnum árin. Hún er rík og falleg og hefur náð miklum árangri í starfi, en nú er komið í ljós að hún hefur verið í óhamingjusömu hjónabandi og hefur notað fíkniefni.

Dóttir fjármálaráðherra Bretlands

Nigella Lawson er 53 ára gömul. Faðir hennar er Nigel Lawson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, en hann var ráðherra í tíð Margrétar Thatchers. Eftir háskólanám fór Nigella að starfa sem gagnrýnandi og blaðamaður. Árið 1998 gaf hún út bókina How to Eat, sem seldist í 300 þúsund eintökum. Tveimur árum síðar sendi hún frá sér bókina Domestic Goddess, sem líka seldist í bílförmum og hlaut mikið lof gagnrýnenda.

Árið 1999 hóf Nigella að gera sjónvarpsþætti um mat á Channel 4. Viðtökurnar urðu strax mjög góðar og í kjölfarið flutti hún sig yfir á ITV og síðar á BBC. Þættirnir hafa verið sýndir um allan heim og m.a. notið mikillar hylli í Bandaríkjunum. Það eru ekki bara uppskriftirnar sem hafa slegið í gegn; sjálfsörugg og afslöppuð framkoma Nigellu á stóran þátt í velgengni hennar. Margir lesa líka kynferðislegan undirtón út úr sjónvarpsþáttunum, en Nigella er t.d. þekkt fyrir að sleikja á sér fingurna þegar hún er að elda.

Nigella er af efnuðu fólki komin, en hún hefur sjálf skapað sér nafn sem skilað hefur henni miklum fjármunum. Hún hefur hagnast mikið á sjónvarpsþáttunum, en þar að auki hefur hún selt meira en þrjár milljónir bóka um allan heim.

Maður hennar lést úr krabbameini

Þótt Nigella hafi notið mikillar velgengni í starfi hefur hún ekki notið sömu hamingju í sínu persónulega lífi. Hún missti móður sína þegar hún var 25 ára gömul. Nigella kynntist blaðamanninum John Diamond árið 1986 þegar þau skrifuðu bæði fyrir Sunday Times. Þau gengu í hjónaband árið 1992 og eignuðust saman tvö börn. Diamond greindist með krabbamein í hálsi árið 1997 og lést 2001, 47 ára gamall. Barátta hans við banvænan sjúkdóm var rakin í pistlum sem birtust í dagblöðum í Bretlandi.

Nigella kynntist Charles Saatch, breskum listaverkasala, nokkrum mánuðum eftir að hún missti mann sinn. Hann er 17 árum eldri en Nigella og átti að baki tvö hjónabönd. Þau giftu sig 2003.

Nigella tjáði sig lítið um hjónaband sitt og Saatchi. Hún lét þess þó getið að maður sinn vildi frekar borða Weetabix-morgunkorn en flest af því sem hún eldaði.

Myndir sem sýna heimilisofbeldi

Í júní í sumar fengu fjölmiðlar hins vegar skyndilega mikinn áhuga á hjónabandi Nigellu og Saatchi. Ljósmyndari tók óhugnanlegar myndir af þeim á veitingahúsi þar sem Saatchi sést grípa um háls Nigellu. Hún er grátandi á sumum myndanna. Í kjölfar myndbirtinganna flutti Nigella út af heimilinu og fór fram á skilnað.

Almenningur velti fyrir sér hvort Nigella hefði búið við heimilisofbeldi. Nigella tjáði sig lítið um málið en Saatchi sagði að hann hefði verið að rökræða við konu sína um börnin. Hann hefði tekið um hálsinn á henni til að leggja áherslu á orð sín. Þetta hefði bara gáskafullur leikur, en hann gerði sér grein fyrir að þetta hefði ekki litið vel út.

Saatchi þarf að rétta hlut sinn

Það er ljóst að skilnaður Saatchi og Nigellu mun ekki ganga í gegn hægt og hljótt. Tekist er á um mikla fjármuni, en ekki síður um orðspor. Saatchi telur að í umfjöllun fjölmiðla hafi hallað á hann. Tækifæri hans til að rétta hlut sinn kom þegar dómsmál, sem hjónin fyrrverandi höfðuðu gegn tveimur konum sem störfuðu fyrir þau, var tekið fyrir. Systurnar Francesca og Elisabetta Grillo eru sakaðar um að hafa notað kreditkort í leyfisleysi og stolið frá þeim um 135 milljónum króna.

Málsvörn ítölsku systranna byggist á því að Nigella hafi gagngert og ítrekað logið að fyrrverandi eiginmanni sínum um eigin eiturlyfjaneyslu og um þau miklu útgjöld sem kæmu fram á kreditkortunum, vegna þess að hún óttaðist viðbrögð hans ef hann vissi sannleikann.

Í gær mætti Nigella í vitnastúkuna og upplýsti að hún hefði tvisvar í lífi sínu notað kókaín. Í fyrra skiptið hefði verið þegar John Diamond var að berjast við krabbameinið sem síðar dró hann til dauða. Þá hefði hún sex sinnum notað kókaín.

Nigella viðurkenndi einnig að hafa í júlí 2010 notað kókaín. Hún sagðist á þeim tíma hafa mátt þola ofbeldi af hálfu eiginmanns síns. Hún sagðist hafa verið algerlega einangruð, óttaslegin og óhamingjusöm.

Neitar því að eiga við fíkniefnavanda að stríða

Nigella kom aftur fyrir dóm í morgun og sagði þá að hún væri ekki stolt af fíkniefnaneyslu sinni. „Ég vil frekar vera heiðarleg og upplýsa um skömm mína frekar en að vera kúguð með lygum.“ Hún sagði að enginn vildi komast í fjölmiðla vegna mistaka sinna. Hún hefði helst viljað komast hjá því að bera vitni í málinu vegna þess að hún hefði vitað að réttarhaldið myndi beinast gegn sér.

Nigella sagðist hafa rætt við lækni um fíkniefnaneyslu sína. Hún vísaði því algerlega á bug að hún væri fíkniefnasjúklingur. Hún hefði notað kannabis síðasta árið sem hún var gift Saatchi. Sér hefði á þeim tíma fundist að það hjálpaði sér að gera óþolandi ástand þolanlegt. Kannabis væri hins vegar ekki góður vinur og hún væri hætt að nota það.

Nigella Lawson er vinsæll sjónvarpskokkur.
Nigella Lawson er vinsæll sjónvarpskokkur.
Nigella giftist Charles Saatchi árið 2003, en ákvað í sumar …
Nigella giftist Charles Saatchi árið 2003, en ákvað í sumar að skilja við hann. LEON NEAL
Ljósmyndarar fylgdust vel með Nigellu Lawson þegar hún kom í …
Ljósmyndarar fylgdust vel með Nigellu Lawson þegar hún kom í dómssal í morgun. FACUNDO ARRIZABALAGA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert