Ólýsanlegur hryllingur

Fjölskyldur á flótta í Mið-Afríkulýðveldinu.
Fjölskyldur á flótta í Mið-Afríkulýðveldinu. AFP

Ólýs­an­leg­ur hryll­ing­ur er að eiga sér stað í Mið-Afr­íku­lýðveld­inu. For­set­an­um var steypt af stóli á þessu ári og borg­ara­styrj­öld­in sem geisað hef­ur í fleiri ár magnaðist til muna. Nú fara vopnaðir skæru­liðar um bæi og sveit­ir lands­ins, ræna, myrða og nauðga. Al­gjört stjórn­leysi rík­ir. Íbú­arn­ir treysta eng­um. Þeir hafa neyðst til að flýja heim­ili sín - en hvergi er skjól að fá. Örygg­is­ráð Sam­einuðu þjóðanna samþykkti loks í gær hernaðarí­hlut­un Frakka og annarra Afr­íku­ríkja. Fleiri þúsund her­menn munu nú freista þess að koma á lög­um og reglu í land­inu. Frakk­ar heita því að gera það svo fljótt sem auðið er. Í gær féllu yfir hundrað óbreytt­ir borg­ar­ar í höfuðborg­inni Bangui. Sjón­ar­vott­ar sögðu lík­in hafa legið á víð og dreif.

Um hálf millj­ón manna hef­ur þurft að flýja heim­ili sín vegna átak­anna eða um 10% þjóðar­inn­ar. Yfir millj­ón manna þurfa á mat­araðstoð að halda. Sjö af hverj­um tíu börn­um hafa ekki getað mætt í skóla í um ár. Að mati Barna­hjálp­ar Sam­einuðu þjóðanna, UNICEF, eru börn í land­inu í mik­illi hættu. Talið er að á milli 3.500-6.000 þeirra hafi verið þvinguð til að ganga til liðs við víga­menn. 

Fimm vald­arán á hálfri öld

Frá því að Mið-Afr­íku­lýðveldið fékk sjálf­stæði frá Frökk­um árið 1960 hafa fimm vald­arán verið gerð í land­inu. Snemma á þessu ári færðist auk­in harka í borg­ara­styrj­öld­ina. Hóp­ur upp­reisn­ar­manna, Seleka, réðst til at­lögu við her rík­is­stjórn­ar for­set­ans Franço­is Bozizé og veltu hon­um að lok­um af valda­stóli. Hann flúði í kjöl­farið land. Meðal þeirra sem berj­ast und­ir merkj­um Seleka eru málaliðar frá Tjad og Súd­an. Leiðtogi hóps­ins, Michel Djotodia, út­nefndi sjálf­an sig for­seta. Liðsmenn hans, sem flest­ir eru mús­lím­ar, hafa síðan þá farið ráns­hendi um landið og framið hrylli­leg of­beld­is­verk. Meiri­hluti þjóðar­inn­ar er krist­in og verður verst fyr­ir barðinu á upp­reisn­ar­mönn­un­um.

Of­beldi án for­dæma

Of­beldið er svo gróft að erfitt er að lýsa því með orðum. Kon­ur og karl­ar hafa verið bund­in sam­an og kastað fyr­ir krókó­díla. Faðir þurfti að horfa á fjög­urra ára son sinn skor­inn á háls. Nauðgan­ir eru notaðar skipu­lega sem vopn í stríðinu og ekki hægt að lýsa því öðru­vísi en sem far­aldri. Kviður óléttr­ar konu var skor­inn upp og líf­færi fjar­lægð. Börn voru stung­in með sveðjum. Upp­reisn­ar­menn­irn­ir hafa rænt börn­um og þvinga þau til að bera vopn og berj­ast sér við hlið. En grimmd­ar­verk­in eru ekki ein­göngu bund­in við liðsmenn Seleka. Mann­rétt­inda­sam­tök­in Am­nesty In­ternati­onal segja að um­fang og eðli of­beld­is­ins sé án for­dæma.

Sam­einuðu þjóðirn­ar ótt­ast þjóðarmorð sam­bæri­legt því sem varð í Rú­anda árið 1994 og segja ástandið fara hríðversn­andi með degi hverj­um. Og þó að nú sé búið að samþykkja hernaðarí­hlut­un er ótt­ast að það taki vik­ur og jafn­vel mánuði að skipu­leggja hana og ná tök­um á ástand­inu. 

Svart­sýn­ir á ár­ang­ur

Marg­ir eru svart­sýn­ir á að aðgerðirn­ar muni yfir höfuð skila til­ætluðum ár­angri og benda á rán­dýrt friðargæslu­verk­efni í Aust­ur-Kongó und­an­far­in ár hafi ekki orðið til þess að koma á friði í land­inu. Þar hafa þó und­an­far­in ár verið yfir 20 þúsund her­menn. Til tíðinda dró þó nú í vet­ur er M23-upp­reisn­ar­hóp­ur­inn gafst upp og liðsmenn hans í hundraða tali gáfu sig fram við her­inn í ná­granna­rík­inu Úganda. Þá er einnig bent á að aðgerðir herja Afr­íku­ríkja í Sómal­íu hafi á und­an­förn­um miss­er­um náð að brjóta niður upp­reisn al-Shabab í land­inu.

Vegna staðsetn­ing­ar Mið-Afr­íku­lýðveld­is hef­ur það reynst hernaðarlega mik­il­vægt í gegn­um árin. Frakk­ar hafa ít­rekað frá sjálf­stæði lands­ins þurft að senda þangað her­menn til að stilla til friðar. Það gerðu þeir m.a. árið 1979 er hrott­inn Jean-Bedel Bo­kassa rændi völd­um og fór að kalla sig keis­ara. Frönsku her­mönn­un­um tókst að koma hon­um af valda­stóli. Í valdatíð Bo­kassa voru fram­in ótal ódæðis­verk, en hann fyr­ir­skipaði m.a. af­töku margra stjórn­mála­manna. Hann lét svo drepa hóp skóla­barna og í kjöl­farið greip Frakk­land í taum­ana.

Árið 1997 voru þrjár upp­reisn­ir gerðar í Mið-Afr­íku­lýðveld­inu. Ári síðar yf­ir­gáfu fransk­ir her­menn loks landið eft­ir að hafa verið þar allt frá sjálf­stæði við þjálf­un her­manna. En aðeins fáum árum síðar voru þeir komn­ir þangað aft­ur til að berj­ast við hlið for­set­ans gegn upp­reisn­ar­mönn­um í norðaust­ur­hluta lands­ins. Sag­an hef­ur svo end­ur­tekið sig og nú í des­em­ber eru 650 fransk­ir her­menn í land­inu. Fleiri bíða hand­an landa­mær­anna, m.a. í Kam­erún.

Lík á götu í höfuðborginni.
Lík á götu í höfuðborg­inni. AFP
AFP
Franskur hermaður undirbýr sig fyrir átök dagsins í Mið-Afríkulýðveldinu.
Fransk­ur hermaður und­ir­býr sig fyr­ir átök dags­ins í Mið-Afr­íku­lýðveld­inu. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert