Keppni þriggja hópa fatlaðra breskra hermanna úr samtökunum Walking With The Wounded á Suðurskautslandinu að pólnum hefur verið hætt. Álagið á hermennina þótti of mikið en þeir glíma þarna við allt að 35 stiga frost. Leiðangurinn heldur engu að síður áfram en nú ferðast hermennirnir í einum hóp.
Á meðal þeirra sem taka þátt í leiðangrinum er Harry Bretaprins en hann og hinir hermennirnir æfðu sig meðal annars til fararinnar á Íslandi. Ed Parker, sem fer fyrir leiðangrinum, segir að keppnin hafi byrjað vel og hermönnunum miðað vel áfram. Harðneskjulegt svæðið hafi hins vegar reynst þeim erfitt, en meðal annars taka þátt hermenn sem misst hafa útlimi. Hafi því verið ákveðið að fresta keppninni.
Parker segir að stefnt sé að því að hermennirnir verði allir komnir á pólinn næstkomandi helgi.
Frétt mbl.is: Harry prins veðurtepptur
Frétt mbl.is: Leiðbeina flugvél með ruslapokum