Bieber söng fyrir börn á Filippseyjum

Frá Tacloban
Frá Tacloban AFP

Kanadíska poppstjarnan Justin Bieber söng fyrir börn og unglinga í borginni Tacloban á Filippseyjum í gærkvöldi en mánuður er síðan borgin nánast þurrkaðist út er fellibylurinn Haiyan reið yfir.

Bieber heimsótti hamfarasvæðið til þess að minna alþjóðasamfélagið á það líf sem unga fólkið býr við á þessum slóðum í dag. Heimsótti hann meðal annars skóla og söng Heims um ból fyrir þau en Bieber var á vegum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og fleiri hjálparsamtaka.

Áður en Bieber flaug til Filippseyja hafði hann skrifað skilaboð á vef söfnunar hjálparsamtakanna þar sem hann hvatti aðdáendur sína til þess að láta eitthvað af hendi rakna til að styðja við bakið á íbúum Filippseyja. Um sex þúsund létust er fellibylurinn reið yfir en um fjórar milljónir misstu heimili sitt.

„Fórnarlömb fellibylsins Haiyan á Filippseyjum þurfa á hjálp okkar að halda - og þau þurfa á henni að halda núna,“ skrifar Bieber meðal annars á vef söfnunarinnar en þeir sem leggja málstaðnum lið eiga möguleika á að vinna miða á tónleika með Bieber á næsta ári.

Justin Bieber
Justin Bieber AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert