Norðmaðurinn Joshua French býr við skelfilegar aðstæður í fangelsi í Austur-Kongó. Hann er fárveikur og fær ekki að hitta lækni, að sögn systur hans, Hannah French í samtali við VG.
Joshua French, 31 árs, var handtekinn í Austur-Kongó árið 2009 ásamt norskum félaga sínum, Tjostolv Moland, og voru þeir dæmdir til dauða í júní 2010. Voru þeir dæmdir fyrir morð á bílstjóra bifreiðar sem þeir höfðu leigt. French er með tvöfalt ríkisfang, norskt og breskt. Mennirnir tveir, sem eru fyrrverandi hermenn, neituðu alltaf sakargiftum og sögðu að bílstjórinn hafi verið drepinn af stigamönnum. Sögðust þeir hafa komið til landsins til þess að stofna öryggisfyrirtæki. Fljótlega eftir að þeir voru dæmdir til dauða skrifuðu þeir Moland og French bréf til forseta Austur-Kongó, Josephs Kabila, og óskuðu eftir því að dauðadómnum yrði breytt í fangelsisdóm sem þeir gætu þeir gætu afplánað í Noregi.
Í ágúst sl. fannst Moland látinn í fangaklefa þeirra og hafa fangelsisyfirvöld í Ndolo-fangelsinu í Kinshasa sakað French um að hafa myrt félaga sinn. Norska utanríkisráðuneytið staðfesti í gærkvöldi að það hafi fengið það staðfest að French hafi verið ákærður fyrir morðið á félaga sínum.
Systir hans, Hannah, segir í samtali við VG í morgun að bróðir hennar sé ekki kvartsár maður en nú geti hann ekki annað þar sem hann sé fárveikur. Óttast fjölskyldan að hann verði tekinn af lífi fyrir morðið þrátt fyrir að neita sök.
Verjandi French, Hans Marius Graasvold, segir í samtali við VG að French líði sárar andlegar kvalir. French telji að endalokin nálgist, að minnsta kosti bíði hans löng fangelsisvist í Kongó.
Faðir Molands, Knut Moland, segir í samtali við TV 2 að hann óttist um French í fangelsinu. Rannsókn hafi leitt í ljós að ekkert saknæmt hafi átt sér stað við andlát sonar hans. Það hafi verið staðfest af lögreglu en nú allt í einu er félagi hans sakaður um að hafa myrt Moland. Þetta sýni í hnotskurn hvernig réttarkerfið er í Austur-Kongó.