Samtök hundasleðaeigenda á Grænlandi (KNQK) skoða nú þann möguleika að hefja framleiðslu á hundakjöti til manneldis fyrir innanlandsmarkað. Vegna loftslagsbreytinga fækkar þeim sem nota hundasleða sem samgöngumáta og hugmyndin er að viðhalda stofninum með því að fita hvolpa til slátrunar.
Fram kemur á grænlenska vefmiðlinum Sermitsiaq að fyrirsjáanleg sé hnignun sleðahundastofnsins, samhliða því sem ísbreiðan minnkar og þynnist því um leið fækkar þeim stöðum þar sem unnt er að komast um á hundasleðum.
Boðað hefur verið til málstofu um sleðahundahald í Ilulissat í dag, þar sem KNQK hyggst leggja fram tillögu um hundarækt til manneldis til að að tryggja komandi kynslóðir hundastofnsins.
„Það er ekkert nýtt að hundakjöt sé étið á sleðasvæðunum,“ hefur Sermitsiaq eftir Mikkel Jeremiassen, formanni KNQK. Hugmyndin sé því ekki alveg úr lausi lofti gripin.
Jeremiassen segist sannfærður um að markaður sé fyrir sölu hundakjöts. „Ég er alveg viss um að það eru einhverjir sem myndu taka hundakjöt fram yfir lambakjöt.“
Grænlenski sleðahundurinn er talin vera ein elsta hundategund heims. Þeir voru fluttir til Grænlands með mönnum fyrir um 4000-5000 árum, en eiga ættir að rekja til Síberíu allt aftur til ársins 7000 fyrir Krist.
Hundarnir verða 55-65 cm háir og vega að jafnaði 30-32 kíló. Þeir þykja eru sterkir og þola mikinn kulda en þykja ekki heppilegir sem heimilishundar.