Enginn virðist enn vita hvaða maður reyndi að túlka á táknmáli það sem helstu þjóðarleiðtogar heims sögðu við minningarathöfn um Nelson Mandela sem fram fór á íþróttaleikvangi í Soweto í S-Afríku í gær. Heyrnarlausir segja þessa uppákomu móðgun.
Þetta mál er mjög neyðarlegt fyrir stjórnvöld í S-Afríku. Fjölmiðlar hafa haft samband við ráðamenn í S-Afríku, en svörin eru ýmist á þá leið að vísa á einhvern annan eða að verið sé að kanna málið.
Undir kvöld sendu stjórnvöld í S-Afríku frá sér yfirlýsingu þar sem segir að þau séu að rannsaka þetta mál, en þau séu ekki enn komin til botns í því. Tekið er fram að yfirvöld í S-Afríku leggi áherslu á að virða réttindi fatlaðra.
Bruno Peter Druchen, framkvæmdastjóri samtaka heyrnarlausra í S-Afríku, vakti fyrstur athygli á málinu, en hann skrifaði á Twitter eftir að athöfnin hófst, að þessi maður væri „trúður“ og bað um að hann yrði fjarlægður þegar í stað.
Margir heyrnarlausir eru öskureiðir yfir þessu máli. Þetta sé móðgandi við heyrnarlausa og baráttu þeirra fyrir viðurkenningu á táknmáli. Maðurinn hafi ekki einu sinni kunnað að segja „Takk fyrir“ á táknmáli.
Maðurinn notaði ekki nein svipbrigði þegar hann var að „túlka“, en svipbrigði eru mikilvægur þáttur í táknmálstúlkun.
Í s-afríska blaðinu City Press segir að maðurinn, sem er ekki nafngreindur, hafi „túlkað“ á fundi hjá Afríska þjóðarráðinu (ANC) fyrir einu ári. Talsmaður Afríska þjóðarráðsins vildi hins vegar ekkert um málið segja og sagði að minningarathöfnin hefði verið í umsjón ríkisstjórnarinnar en ekki ANC.
<br/><br/>