Harry Bretaprins er fyrsti meðlimur konungsfjölskyldunnar til að stíga fæti á suðurpólinn. Þeim áfanga náði hann í dag er hann ásamt hermönnum sem særst hafa í stríði, luku 320 kílómetra göngu sinni yfir Suðurskautslandið og að pólnum.
Hermennirnir eru frá Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. Gangan hefur tekið um þrjár vikur. Hópurinn náði áfanganum um hádegi. Hópurinn æfði sig m.a. fyrir verkefnið hér á landi og eru starfsmenn íslenska fyrirtækisins Arctic Trucks í fylgdarliðinu.
Í fyrstu var hópnum skipt í þrjú lið sem ætluðu að keppa um að komast fyrst á pólinn. Fljótlega varð hins vegar ljóst að aðstæður voru erfiðar hermönnunum sem sumir hverjir hafa misst útlim í stríðsátökum. Ákveðið var þó að halda áfram göngunni.