Jang Song-Thaek, sem kvæntur var frænku Kim Jong-Un, leiðtoga N-Kóreu, stóð í samningaviðræðum við stjórnvöld í Kína um að koma á fót tveimur sérstökum efnahagssvæðum í N-Kóreu. Talið er hugsanlegt að þetta hafi átt þátt í að Jang var tekinn af lífi.
Enginn veit með vissu hvað varð til þess að Jang féll í ónáð hjá Kim Jong-Un. Í frétt ríkisfréttastöðvarinnar KCNA segir að Jang hafi ætlað að steypa af stóli ríkisstjórn landsins. Hann hafi ætlað að koma á fót „litlum konungdæmum“ og stuðla að „óeirðum“ í landinu. Hann hafi einnig ætlað að taka völdin á „mikilvægum efnahagssvæðum í landinu“ og hann hafi undirbúið efnahagsáætlun sem hefði leitt til hörmunga fyrir íbúa landsins.
Í ágúst á síðasta ári fór Jang í opinbera heimsókn til Kína þar sem hann hitti Hu Jintao, þáverandi forseta Kína. Í framhaldinu var undirritaður efnahagssamningur milli Kína og N-Kóreu sem m.a. fól í sér að komið yrði á fót sérstökum efnahagssvæðum í Rason, sem er á austurströnd N-Kóreu og í Hwanggumphyong, sem er á landamærum ríkjanna.
Lucy Williamson, fréttamaður BBC í Seoul, höfuðborg S-Kóreu, segir að vangaveltur séu um að Jang hafi orðið mjög hrifinn af þeim efnahagsframförum sem átt hafa sér stað í Kína.
Hún telur þó að meginástæðan fyrir falli Jang sé að hann hafi verið farinn að ógna völdum Kim Jong-Un.
Lee Jung-hoon, prófessor í S-Kóreu, segir að þessir atburðir sýni að mikill óstöðugleiki ríki í N-Kóreu. Það að Kim Joung-Un hafi verið tilbúinn til að ganga svo langt að láta taka mág föður síns og læriföður sinn af lífi sýni hvers konar ástand ríki í landinu.