Nigella Lawson og fyrrverandi eiginmaður hennar, Charles Saatchi, hafa verið ásökuð um að bera ljúgvitni við réttarhöldin í máli sínu gegn tveimur fyrrverandi aðstoðarkonum.
Önnur kvennanna, Elisabetta Grillo, sagði í dag að hún teldi að fleiri úr starfsliði Nigellu hefðu einnig logið í vitnastúkunni.
Nigella viðurkenndi í síðustu viku að hafa notað kókaín en aðeins tvisvar. Grillo sagði hins vegar í sínum vitnisburði að hún hefði oft séð margvísleg ummerki um fíkniefnanotkun Nigellu þó hún hefði aldrei beinlínis séð hana taka slík efni.
Nigella og Saatchi saka konurnar um að hafa notað kreditkort þeirra til persónulegra nota. Meðal annars eru konurnar sagðar hafa keypt sér ýmsan lúxusvarning út á kortin. Grillo sagði hins vegar í dag að Nigella hefði leyft sér að kaupa rúm og skrá sig á tískunámskeið sem greitt var fyrir með kreditkortum hjónanna. Þá hafi hún fengið leyfi til að nota kortin er hún var í helgarferð í París þar sem hún fagnaði afmæli sínu. Sömu skýringu gaf hún fyrir kaupum á nærfatnaði frá Calvin Klein.
„Enginn sagði að ég mætti ekki taka peningana,“ sagði hún.
Sjá ítarlega frétt um réttarhöldin á vef Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.