Desmond Tutu erkibiskup í Suður-Afríku og vinur Nelsons Mandela til áratuga, mun ekki verða viðstaddur jarðarför hans á morgun. Ástæðan: Honum er ekki boðið.
Tutu sagði frá þessu er kjaftasögur um að hann ætlaði að hundsa útförina fóru að heyrast. „Eins mikið og ég hefði viljað vera viðstaddur athöfnina og kveðja mann sem ég elskaði og dáði í hinsta sinn, þá hefði verið óvirðing við hann að gerast boðflenna. Athöfnin er eingöngu hugsuð fyrir fjölskylduna,“ sagði Tutu í dag.
Hann segir að hefði sér verið boðið hefði hann ekki hikað við að fara.
Starfsmenn Tutus afboðuðu í dag flug austur í land þar sem jarðarförin fer fram. Það gerðu þeir af því að ekkert boð hafði borist Tutu.