Á meðal gamlir samstarfsmenn Nelsons Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, stjórnmálamenn og fjöldi fulltrúa erlendra ríkja eru viðstaddir útför hans, sitja heimamenn í þorpinu Qunu, þar sem Mandela fæddist og ólst upp, og fylgjast með útförinni í gegnum sjónvarpið á heimilum sínum.
„Ég er ánægður að horfa á þetta í sjónvarpinu. Ég sé illa en sé þetta betur svona,“ sagði hinn 73 ára Dickson Gangatele, í samtali við AFP-fréttastofuna. Hann fylgist með útförinni ásamt 27 ára dóttur sinni, Weziwe. „Ég er ánægður. Hann hefur kvalist svo lengi á spítala,“ segir Gangatele. „Nú er hann frjáls.“
Eins og áður hefur komið fram verður aðeins nánasta fjölskylda og vinir Mandela við greftrunina sjálfa. „Ég myndi vilja horfa, en þau segja að við megum það ekki. Það er aðeins fjölskyldan,“ segir Nolinda Ruba, en hún sér um að undirbúa mat fyrir þorpsbúana eftir jarðarförina. Útfarir eru venjulega opnar öllum í Suður-Afríku, en vegna plássleysis og öryggismála þurfti að takmarka fjölda gesta.
Fyrir utan hlið heimilis Mandela-fjölskyldunnar, sem gætt er af öryggisvörðum, bíður Nomvula Luphondo, 44 ára. Hann vonast til þess að koma auga á hetjuna í hinsta sinn. „Kannski hleypa þeir mér inn,“ segir hann í samtali við fréttamann AFP-fréttastofunnar, en hann eyddi nóttinni í bíl fyrir utan hliðið.