Útför Mandela hafin í Qunu

Frá útför Mandela.
Frá útför Mandela. AFP

Útför Nelsons Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, hófst klukkan 6 að íslenskum tíma í morgun. Um 4.500 gestir eru viðstaddir athöfnina sem fer fram í þorpinu Qunu þar sem Mandela fæddist og ólst upp. Auk ættingja og vina Mandela eru gamlir samstarfsmenn hans, stjórnmálamenn og fjöldi fulltrúa erlendra ríkja viðstaddir.

21 skoti var hleypt af honum til heiðurs og stóðu hermenn heiðursvörð. Kistu Mandela var komið fyrir á  kýrhúð og eru 95 kerti umhverfis hana, en hvert þeirra táknar eitt ár ævi hans. Á kistunni liggur fáni Suður-Afríku.

Karl Bretaprins og Oprah Winfrey eru meðal þeirra sem viðstödd eru athöfnina.

Forseti Suður-Afríku, Jacob Zuma sat á milli ekkju Mandela, Graca Machel og fyrrverandi  eiginkonu hans og vinkonu, Winnie Madikizela-Mandela við útförina. Með útförinni lýkur tíu daga þjóðarsorg í landinu þar sem hundruð þúsunda Suður-Afríkubúa hafa vottað fyrrverandi forseta landsins virðingu sína og minnst afreka hans á ýmsa vegu.

Útförin mun standa yfir í tvo tíma og er sýnt beint frá henni víða um heim. Aðeins nánasta fjölskylda Mandela mun þó vera viðstödd greftrunina sjálfa.

Karlmenn úr ættbálki hans munu hafa umsjón með greftruninni, en þar verður uxa meðal annars slátrað. Á meðal á athöfninni stendur verður rætt um Mandela sem Dalibhunga, en það er nafnið sem honum var gefið þegar hann var 16 ára við vígslu hans sem fullorðins einstaklings.

Ummæli erkibiskupsins Desmond Tutu um að hann væri ekki boðinn til útfararinnar vörpuðu á vissan hátt skugga á undirbúning athafnarinnar. Tutu mætti þó til útfararinnar og hafa yfirvöld í Suður-Afríku sagt að um misskilning hafi verið að ræða.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert