Níu metra há bronsstytta af Nelson Mandela, fyrrverandi forseta S-Afríku, var afhjúpuð í Pretoríu, höfuðborg landsins, í dag. Útför Mandela fór fram á sunnudag.
Styttan stendur fyrir framan stjórnarráðið í Pretoríu. Það var Jacob Zuma, forseti S-Afríku, sem afhjúpaði styttuna. Meðal viðstaddra var Jesse Jackson, mannréttindaleiðtogi frá Bandaríkjunum.
16. desember hefur sérstaka stöðu í S-Afríku. Eftir að evrópsku landnemarnir (Búarnir) höfðu lagt undir sig Gauteng-hérað í S-Afríku héldu þeir áfram austar í landið og hugðust leggja undir sig Drakensberg. Í febrúar árið 1838 sendu Búar sendinefnd á fund Dingaan, konungs Zulu-ættbálksins. Þeir buðu honum friðarsamning sem fól í sér að Zulu-menn létu af hendi mikið landsvæði. Dingaan undirritaði samninginn en lét síðan myrða alla sendinefndina. Hann lét síðar þetta sama ár myrða fleiri Búa sem sest höfðu að í nágrenninu.
Búar tóku nú að safna liði og í desember lögðu þeir til atlögu. Þann 16. desember kom herflokkur þeirra að Ncome-ánni og þar laust Zulu-mönnum og Búum saman. Eftir þriggja tíma orrustu var vatnið í ánni orðið rautt, enda nefndu Búar ánna Blood River (Blóðáin). Um 3.000 Zulu-menn létust í átökunum, en þrír Búar særðust. Eftir þennan „glæsta sigur“ gat ekkert stöðvað landnám Búa. Þeir fögnuðu sigrinum árlega því að 16. desember kölluðu þeir „Sigurdaginn“. Dagurinn var haldinn hátíðlegur í S-Afríku allt til ársins 1994. Þá tóku blökkumenn við völdum í landinu og þeir breyttu nafni dagsins og kölluðu hann „Dag sátta“.