Bandaríkjaþing samþykkir fjárlögin

Bandaríska þinghúsið í Washington.
Bandaríska þinghúsið í Washington. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í kvöld fjárlög ríkisins til næstu tveggja ára. Þar með hefur náðst sátt um rekstur bandarísku þjóðarskútunnar en harðar deilur hafa staðið um ríkisfjármálin undanfarna mánuði.

Þá hefur verulega dregið úr líkum á því að loka þurfi bandarískum ríkisstofnunum sökum fjárskorts í janúar líkt og gerðist í haust. 

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings var þegar búin að afgreiða og samþykkja fjárlögin. Í efri deild þingsins voru fjárlögin samþykkt með 64 atkvæðum gegn 36. Allir þingmenn demókrata lögðu blessun sína yfir frumvarpið auk níu þingmanna úr herbúðum Repúblikanaflokksins.

Frumvarpið fer nú til Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, til undirritunar. Búist er við að hann staðfesti lögin með undirskrift sinni áður en hann fer til Hawaii á föstudag í jólafrí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert