Gæti skaðað fríverslunarviðræðurnar

Edward Snowden.
Edward Snowden. AFP

Ræði þingmenn á Evrópuþinginu við bandaríska uppljóstrarann Edward Snowden mun það skaða viðræður Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um mögulegan fríverslunarsamning. Þetta er haft eftir bandaríska fulltrúadeildarþingmanninum Mike Rogers á fréttavefnum PCWorld.com.

Rogers lét ummælin falla í samtali við fréttamenn fyrir utan Evrópuþingið í Brussel í gær. Sagði hann það fyrir neðan virðingu þingsins að ræða við Snowden. Evrópuþingið hefur óskað eftir því að Snowden, sem staddur er í Rússlandi þar sem hann hefur tímabundið hæli, ræði í gegnum myndsíma við nefnd þingsins sem rannsakar njósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) um ríkisborgara Evrópusambandsins.

Haft er eftir Evrópuþingmanninum Sophie In’t Veld að bak við tjöldin hafi bandarískir stjórnmálamenn sem komið hafi til Brussel kallað Snowden svikara og reynt að þrýsta á þingmenn á Evrópuþinginu að bjóða honum ekki að ræða við þingnefndina. „Þetta er ótrúlegt. Þeir koma hingað til þess að vara okkur við því að ræða við hann eða hafa verra af. Við á Evrópuþinginu ákveðum bara sjálf hverja við ræðum við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka