Blaðamenn News of the World í Bretlandi komust yfir skilaboð sem Vilhjálmur Bretaprins skildi eftir í talhólfi unnustu sinnar, og núverandi eiginkonu, Kate Middleton. Þetta kom fram í réttarhöldum yfir blaðamönnum og stjórnendum blaðsins í gær.
Í einu þeirra kallaði Vilhjálmur hana gælunafninu „babykins“ og í öðru sagði hann henni frá því að hann hefði næstum því verið skotinn með púðurskotum við æfingar í Aldershot, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.
Þá skildi ónafngreindur karlmaður eftir skilaboð handa Harry Bretaprins, en maðurinn þóttist vera Chelsy Davy, sem var þáverandi kærasta hans.
Þetta er í fyrsta sinn sem kviðdómendur hafa heyrt af því að blaðamennirnir hafi komist inn í talhólf hertogaynjunnar.
Rebekah Brooks og Andy Coulson, fyrrverandi ritstjóra News of the World, eru ákærð í málinu auk Clive Goodman sem hafði yfirumsjón með fréttaflutningi af bresku konungsfjölskyldunni. Þau neita öll sök, en þau eru m.a. sökuð um samsæri með því að hafa komast yfir talhólfsskilaboð með ólöglegum hætti.