„Túlkurinn“ lagður inn

Thamsanqa Jantjie túlkaði m.a. ræðu Baracks Obama Bandaríkjaforseta.
Thamsanqa Jantjie túlkaði m.a. ræðu Baracks Obama Bandaríkjaforseta. AFP

Maðurinn sem var fenginn til þess að vera táknmálstúlkur á minningarathöfninni um Nelson Mandela í Jóhannesarborg hefur verið lagður inn á geðsjúkrahús.

Maðurinn er talinn hafa búið til tákn og enginn heyrnarlaus skyldi hann. Maðurinn, Thamsanqa Jantjie, „gæti hafa fengið taugaáfall,“ er haft eftir eiginkonu hans á vef BBC.

Reyndir táknmálstúlkar segja að maðurinn hafi m.a. sagt „rækjur“ og „rugguhestar“ í táknmáli sínu er hann var að þýða minningarræður ýmissa leiðtoga heimsins.

Sjálfur segist hann þjást af geðklofa. Sjúkdómurinn hafi heltekið hann nýlega. Áður hafi hann verið góður túlkur.

Ráðherra fötlunarmála í Suður-Afríku segir að fyrirtækið sem maðurinn var sagður vinna hjá hafi hreinlega „gufað upp“.

Eiginkonan hefur nú farið með hann á geðsjúkrahús í nágrenni Jóhannesarborgar. Talið er að hann verði lagður samstundis inn, segir í frétt BBC.

Frétt BBC um málið í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert