Systurnar tvær sem sakaðar voru um að hafa stolið 135 milljónum króna frá Nigellu Lawson og Charles Saatchi voru sýknaðar af öllum ásökunum fyrir dómstóli í London í dag.
Systurnar, Elisabetta og Francesca Grillo, héldu því fram að Nigella hefði heimilað þeim frjálsa notkun á kreditkorti sínu, m.a. til að leyna fíkniefnaneyslu sinni fyrir eiginmanni sínum.
Systurnar voru handteknar 2. ágúst á síðasta ári, nokkrum vikum eftir að Nigella ákvað að skilja við Saatchi. Þær voru sakaðar um að hafa stolið fjármunum frá hjónunum á árunum 2008-2012. Fjármunina notuðu þær m.a. til að kaupa dýrar merkjavörur frá Louis Vuitton, Christian Dior og Vivienne Westwood.
Dómarinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að systurnar hefðu haft heimild til að nota kreditkortið og sýknaði þær af ásökunum um þjófnað.
Það sem vakti mesta athygli við réttarhaldið var að Nigella viðurkenndi í vitnastúku að hafa neytt fíkniefna. Systurnar sögðu hins vegar að þær hefðu ástæðu til að ætla að Nigella hefði gert minna úr neyslunni en ástæða væri til. Þær hefðu margoft séð ummerki um neyslu kókaíns og kannabisefna.