Fjölskylda Khodorkovskí sameinuð á ný

Míkhaíl Khodorkovskí, sem áður var auðugasti maður Rússlands, fagnar lausn liðskvenna rússnesku pönksveitarinnar Pussy Riot en þær voru látnar lausar úr fangelsi í gær. Khodorkovskí var látinn laus í síðustu viku eftir að hafa verið í fangelsi í tíu ár.

Hann mun eyða jólunum með eiginkonu sinni Inna og þremur dætrum þeirra i fyrsta skipti í tíu ár. Þau hittust öll í Berlín í dag.

Nadezhda Tolokonníkova og María Aljokhína, voru í gær látnar lausar úr fangelsi en þær fengu báðar sakaruppgjöf í Rússlandi í síðustu viku. Khodorkovskí sagði á fundi með blaðamönnum í dag að hann fagnaði því að pyntingum þeirra væri lokið.

Aljokhína og Tolokonníkova voru dæmdar í tveggja ára vistun í fangabúðum fyrir óspektir í kirkju í Moskvu í febrúar 2012 þegar þær efndu til mótmæla gegn Vladímír Pútín forseta.

Mikla athygli vakti er Pútín náðaði  Khodorkovskí en hann var á sínum tíma dæmdur fyrir fjársvik. Á Vesturlöndum er almennt talið að um falskar sakargiftir hafi verið að ræða, Pútín hafi verið að refsa Khodorkovskí fyrir að styðja pólitíska fjendur forsetans.

Að sögn Aljokhínu er sakaruppgjöf sem Pútín veitti henni í síðustu viku ekkert annað en sýndarmennska til að blekkja almenning og umheiminn.

„Þetta er ekki sakaruppgjöf heldur vanhelgun á hugtakinu,“ sagði Aljokhína í viðtali við Dozhd-sjónvarpsstöðina. „Ég lít ekki svo á að þessi tími hafi verið til einskis,“ sagði hún. „Ég þroskaðist, sá ríkisvaldið innan frá, sá hvernig þessi alræðisvél er í reynd.“ Aðeins lítill hluti allra þeirra sem væru í fangelsi í Rússlandi vegna andstöðu við Pútín og stjórn hans hefði verið náðaður, að sögn Aljokhínu.

Míkhaíl Khodorkovskí
Míkhaíl Khodorkovskí AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert