„Verður versti dagur í lífi ykkar“

Adam Lanza var með tappa í eyrunum svo hann myndi …
Adam Lanza var með tappa í eyrunum svo hann myndi ekki heyra hróp og köll nemendanna þegar hann skaut. AFP

„Þetta verður versti dagur í lífi ykkar,“ sagði Wiliam Cario lögregluforingi við sjúkraliða sem voru sendir inn í Sandy Hook-grunnskólann í bænum Newtown í Connecticut þann 14. desember í fyrra. Þar biðu þeirra staflar af líkum barna sem höfðu verið myrt með köldu blóði skömmu áður.

Í gær birti lögreglan í Connecticut þúsundir blaðsíðna um rannsóknina á fjöldamorðunum í Newtown fyrir rúmu ári.

Þar er ýmsum atriðum lýst, bæði varðandi árásina og það hvernig morðinginn, Adam Lanza, var heltekinn af morðum. Eins er fjallað um hugrekki starfsmanna skólans og hvernig þeir brugðust hárrétt við til þess að verja börnin.

Líkunum staflað upp eins og sardínum

„Á annan tug líka, mestmegnis barna, hafði verið staflað upp líkt og sardínum inni á salerni. Hryllingurinn inni í skólanum var slíkur að þegar lögreglan sendi sjúkraliða inn reyndu þeir að velja þá til fararinnar sem líklegastir voru til að geta tekist á við það sem þeir voru að fara að upplifa,“ segir meðal annars í skýrslunni en bandaríska dagblaðið Washington Post fjallar ítarlega um skýrsluna í dag.

Skýrslan markar lok rannsóknarinnar á skotárásinni í Sandy Hook-grunnskólanum þar sem 20 sex og sjö ára börn og sex starfsmenn skólans sem voru að reyna að verja börnin lágu í valnum. 

Með tappa í eyrunum svo hann heyrði ekki í fórnarlömbunum

Lanza, sem var tvítugur að aldri, fór í skólann eftir að hafa myrt móður sína, Nancy, á heimili þeirra en hún var kennari við skólann. Hann framdi sjálfsvíg þegar lögreglan kom í skólann. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að hann hafi verið með gula tappa í eyrunum þegar hann framdi morðin svo hann heyrði ekki óp fórnarlambanna en Lanza var mjög viðkvæmur fyrir hávaða og ljósi.

Margt af efni skýrslunnar er ekki birt opinberlega til þess að vernda þá sem eiga hlut að máli enda óþarfi að upplýsa um allt það sem þarna gerist opinberlega, segir í frétt WP. En þrátt fyrir það blasir hryllingurinn við á nánast hverri blaðsíðu.

Meðal annars eru myndir af heimili Adams Lanza og móður hans en fjölmörg vopn var þar að finna. Fyrrverandi kennari hans lýsir andfélagslegri hegðun hans og hvernig pilturinn hafi nánast engin samskipti haft við aðra nemendur og því hvernig hann hafi verið heltekinn af skrifum um bardaga, tortímingu og stríð.

Lýsingar hans svo myndrænar að ekki var hægt að deila þeim

Haft er eftir kennaranum að á hans löngum ferli sem kennari hafi hann leyft unglingsstrákum að skrifa um slíka hluti en lýsingar Adams hafi verið svo myndrænar að það var ekki hægt að deila þeim með öðrum.

Kennarar heyrðu húsvörðinn, Rick Thorne, reyna að fá Lanza til þess að yfirgefa skólann. Einn kennari,  sem faldi sig inni í skáp, segist hafa heyrt Thorne kalla: „Leggðu byssuna frá þér“ og síðan hafi heyrst skothríð en Thorne slapp lifandi.

Kaitlin Roig, kennari við skólann, sagði lögreglu að þegar hún hafi heyrt skothríð hafi hún drifið nemendur inn á baðherbergi og sett skáp á hjólum fyrir hurðina sem tálma. Hún lýsir því hvernig hún hafi heyrt rödd segja: Nei gerðu það, gerðu það nei. Roig neitaði að koma út af baðherberginu þegar lögregla kom á vettvang og sagði að ef þeir væru alvöru lögreglumenn þá gætu þeir útvegað lykil að hurðinni - sem þeir gerðu. En aðrir voru ekki jafn heppnir.

Christopher Vanghele lögregluforingi lýsir því hvernig hann og annar lögregluþjónn fundu hrúgu sem reyndist vera fimmtán lík, aðallega börn, sem hafði verið staflað upp. Það höfðu svo margir troðið sér inn í baðherbergið að ekki var hægt að loka hurðinni. Lanza skaut því allan hópinn til bana.

Starfsmenn skólans eru hetjur

Einn lýsir því að mitt í öllum hryllingnum og svartnættinu sem blasti við sjúkraliðum og lögreglu hafi verið ljósgeisli - að sjá hvernig starfsmenn skólans hafi drýgt hetjudáðir og bjargað börnum frá árásarmanninum.

Peter Lanza, faðir Adams, sagði lögreglu að sonur hans hefði verið með asperger-heilkenni og þráhyggju- og kvíðaröskun, OCD.

Fyrrverandi nemandi við menntaskólann í Newtown sem var á sömu braut og Adam Lanza segir að í hvert skipti sem Lanza var rétt eitthvað hafi hann sett ermarnar yfir hendurnar svo hann þyrfti ekki að snerta hlutinn. Þetta er í samræmi við það sem hjúkrunarfræðingur sagði sem hafði hitt Lanza í tengslum við vinnu sína. Að hennar sögn var hann alltaf að þvo hendur sínar og hann hefði skipt um sokka tuttugu sinnum á dag. Það hafi þýtt að móðir hans þurfti að þvo þrjár vélar á dag af honum.

Hjúkrunarfræðingurinn segir að Nancy, móður Adams, hafi neitað að gefa honum lyf sem hann hafi þurft á að halda vegna þráhyggjuröskunarinnar og að hún hafi ekki pantað nýjan tíma þegar Adam skrópaði í tíma hjá lækni.

Vinur Nancy Lanza segir að hún hafi sagt honum að Adam hafi meitt sig á höfði nokkrum dögum fyrir árásina. Fyrrverandi kærasti hennar sagði lögreglu að hún hefði hætt við ferðalag til Lundúna viku fyrir árásina vegna vandamála heima fyrir.

Frétt WP í heild

Bandarísku forsetahjónin, Barack Obama og Michelle Obamakveiktu á 26 kertum …
Bandarísku forsetahjónin, Barack Obama og Michelle Obamakveiktu á 26 kertum í minningu fórnarlamba Adams Lanza. AFP
AFP
AFP
AFP
Þann 14. desember var eitt ár liðið frá fjöldamorðunum í …
Þann 14. desember var eitt ár liðið frá fjöldamorðunum í Sandy Hook grunnskólanum AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka