Yfir þúsund fórnarlömb fellibylsins Haiyan liggja enn ógrafin á Filippseyjum. Sjö vikur eru liðnar síðan svæðið var lagt í rúst af þessum stærsta fellibyl sem mælst hefur. Íbúar á hamfarasvæðinu búa við megna rotnunarlykt frá líkunum.
Um 1.400 svartir líkpokar, þaktir flugum, liggja í dag á opnu svæði í San Isidro, sveitaþorpi í útjaðri borgarinnar Tacloban, að sögn blaðamanns Afp á svæðinu. Þangað hafa öll óþekkt lík sem finnast verið flutt síðan 10. nóvember.
„Lyktin sviptir okkur allir matarlyst. Við þurfum meira að segja að sofa með andlitsgrímu á nóttunni,“ hefur Afp eftir Maritess Pedrosa, konu sem býr í nágrenni engisins þar sem líkunum er safnað saman.
Að minnsta kosti 6.111 létu lífið vegna hamfaranna hinn 8. nóvember en 1.779 er enn saknað. Auk þess misstu 4,4 milljónir manna heimili sitt.
Í San Isidro reyna réttarmeinafræðingar að bera kennsl á líkin, sem eru svo færð ættingjum til greftrunar. Undanfarnar sjö vikur eru þó farnar að taka sinn toll, enda hefur rignt gríðarlega og lofthiti verið mikill.
Lík sem ekki tekst að bera kennsl á eru á endanum flutt í fjöldagröf í um 3 km fjarlægð. Bæjarstjórinn Eutiqio Balunan segir að réttarmeinafræðingar hafi tekið sér hlé frá störfum yfir jólin.
„Við höfum beðið stjórnvöld vinsamlegast um að grafa líkin sem allra fyrst því börnin okkar og gamla fólkið er að veikjast. Þetta er orðið að fluguverksmiðju,“ hefur Afp eftir bæjarstjóranum.
Lögreglumenn gæta líkanna sem liggja á enginu. Hlutverk þeirra er ekki síst að koma í veg fyrir að líkin veðri étin af flækingshundum.