Þrettán létust í sjálfsvígsárás í rússnesku borginni Volgograd í morgun. Talið er að kona hafi framið tilræðið, sem gert var á lestarstöð í borginni, samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar RIA Novosti frá hryðjuverkadeild lögreglunnar.
Í október létust sex í sjálfsvígsárás í strætó í borginni. Stjórnvöld í Rússlandi óttast að hryðjuverkaárásum muni fjölga á næstunni en vetrarólympíuleikarnir hefjast í borginni Sochi eftir sex vikur.
Sprengjan sprakk á lestarstöðinni Volograd 1 um kl. 12.45 að staðartíma, 8.45 að íslenskum tíma. Fjölmargir sjúkrabílar voru sendir á staðinn og sýna myndir lík fyrir framan bygginguna og glerbrot og rusl út um allt. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á tilræðinu en óttast er að mun fleiri hafi látist heldur en í fyrstu var talið.