Meindýraeitur í matnum

Lögreglan stormar hér inn í verksmiðjuna í Gunma
Lögreglan stormar hér inn í verksmiðjuna í Gunma AFP

Yfir 300 manns, víðsvegar um Japan, hafa veikst af matareitrun undanfarna daga. Er eitrunin rakin til þess að meindýraeitur fannst í frosnum réttum.

Hefur fólk bæði fengið uppköst og niðurgang eftir neyslu á frosnum mat sem er framleiddur í verksmiðju í Gunma, norður af Tókýó.  Verksmiðjan er rekin af dótturfyrirtæki stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Japans, Maruha Nichiro Holdings.

Lögreglan hefur hafið rannsókn á fyrirtækinu eftir að það upplýsti um það í síðasta mánuði að skordýraeitur hafi fundist í einhverjum frosnum afurðum þeirra. Í verksmiðjunni eru framleiddar frosnar pizzur og lagsagne.

Maruha Nichiro segir í tilkynningu að 460 þúsund símtöl hafi borist til fyrirtækisins frá viðskiptavinum í tengslum við eitrunina. Alls hafa 1,2 milljónir pakkninga verið innkallaðar en óskað hefur verið eftir því að 6,4 milljónum pakkninga verði skilað. Vörurnar hafa ekki verið fluttar úr landi og því einungis fáanlegar í Japan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert