Veðurfar hamlaði réttarhöldum

Réttarhöldunum yfir Mohamed Morsi fyrrverandi forseta Egyptalands, sem halda átti áfram í morgun, var frestað til 1. febrúar. Ástæðan er veðurfar sem sagt er hamla því að hægt sé að flytja Morsi með þyrlu úr fangelsi í réttarsal.

Morsi var steypt af stóli í júlí í fyrra og sætir ákærum, ásamt 14 öðrum forystumönnum Bræðralags múslíma, fyrir að bera ábyrgð á dauða hóps mótmælenda fyrir framan forsetahöllina í Kaíró í desember 2012.

Að auki er hann ákærður fyrir að hafa starfað með Hamas-samtökunum í Palestínu og Hizbollah í Líbanon að því að fremja hryðjuverk. Þá er hann ákærður fyrir samsæri sem varð til þess að fangar komust út úr fangelsum í Kaíró í byrjun árs 2011.

Undanfarna mánuði hefur hann verið í haldi í fangelsi skammt frá hafnarborginni Alexandríu. Fjöldi stuðningsmanna hans eru í haldi og í lok síðasta árs voru 139 þeirra dæmdir til tveggja ára fangelsisvistar. 

Til stóð að rétta yfir 14 af forystumönnum Bræðralags múslíma í dag, sem einnig eru sakaðir um að bera ábyrgð á dauða mótmælendanna, en þeir komu ekki allir í dómssal í morgun. 

Essam al-Erian er einn þeirra sem kom fyrir dómara í morgun. „Þetta eru pólitísk réttarhöld,“ sagði hann við fréttamann AFP-fréttastofunnar. Hann, ásamt öðrum sem koma áttu fyrir dómara í dag, eru í hungurverkfalli.

Stuðningsmenn Morsis hafa mótmælt réttarhöldunum víða um landið í dag. Þeir kveiktu í bíldekkjum og skemmdu bíla og beitti lögregla táragasi til að dreifa mannfjöldanum.

Morsi var steypt af stóli í júlí sl.
Morsi var steypt af stóli í júlí sl. AFP
Öryggislögreglan var við öllu búin í Kaíró í morgun.
Öryggislögreglan var við öllu búin í Kaíró í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert