Faðir systranna, sem voru sýknaðar af öllum ásökunum um að hafa stolið frá Nigellu Lawson, Michele Grillo, var handtekinn í Mílanó í gærkvöldi sakaður um að kúga fé út úr næturklúbbum en hann tengist mafíunni.
Michele Grillo var dæmdur í fimmtán ára fangelsi árið 1981 fyrir mannrán sem skipulagt var af 'Ndrangheta-glæpasamtökunum. Hann heldur því fram að hann hafi snúið af villu síns vegar og sé heiðarlegur vörubílstjóri í dag.
Saksóknarar sem fyrirskipuðu að Grillo skyldi handtekinn í gær halda því hins vegar fram að hann sé hægri hönd Agostinos Catanzariti, sem einnig var handtekinn í gær og er grunaður um að vera höfuðpaur glæpahóps sem krefur næturklúbba um verndargreiðslur í Mílanó.
Lögregla hleraði símtöl Grillos og Catanzaritis og hefur í framhaldi af því ákverðið að hefja á ný rannsókn á morði árið 1976.
Dætur Grillos, Elisabetta og Francesca Grillo, störfuðu fyrir sjónvarpskokkinn Lawson og fyrrverandi eiginmann hennar, milljarðamæringinn Charles Saatchi. Þær voru hreinsaðar af sök um að hafa stolið fé frá þeim hjónum.
Þær voru sakaðar um að hafa notað greiðslukort í eigu Lawson og Charles Saatchi og hljóðaði reikningurinn alls upp á 685.000 pund (um það bil 130 milljónir kr.).
Systurnar héldu því fram að Lawson hefði leyft þeim að nota kortin til að fela það að hún notaði kókaín.