Forsetinn á flandri á næturlagi til að hitta ástkonuna

François Hollande, forseti Frakklands
François Hollande, forseti Frakklands AFP

François Hollande, forseti Frakklands, íhugar að höfða mál gegn tímaritinu Closer eftir að það birti frétt um að hann ætti í ástarsambandi við leikkonu.

Hollande gagnrýnir umfjöllun tímaritsins harðlega og segir hana árás á einkalíf hans.

Í blaðinu sem kemur út í dag er greint frá ástarsambandi Hollande og leikkonunnar Julie Gayet. Segir blaðið á vef sínum í gær að það hafi myndir í fórum sínum sem styðji við frásögnina. Á vef Closer í gær kemur fram að sjö blaðsíðna umfjöllun um ástarsamband forsetans og leikkonunnar sé að finna í útgáfunni í dag. Orðrómur um ástarsambandið hefur verið í gangi í Frakklandi í marga mánuði. Samkvæmt Closer á Hollande iðulega að fara á vélhjóli sínu í næturheimsóknir til leikkonunnar í París en Hollande er í sambúð með blaðamanninum Valérie Trierweiler. Áður var hann í sambúð með barnsmóður sinni, fyrrverandi forsetaframbjóðanda sósíalista, Ségolène Royal, en hann yfirgaf hana eftir að ástarsamband hans og Trierweiler hófst. Royal og Hollande eiga fjögur börn saman.

Closer birtir mynd sem blaðið segir að sé af forsetanum ásamt Gayet í íbúð hennar um áramótin.

Í síðasta mánuði greindi vikuritið L'Express frá því að öryggisverðir í forsetahöllinni hefðu miklar áhyggjur af „flandri“ forsetans án þess að öryggisverðir væru með í för.

Closer segir að myndir sem það hefur undir höndum veki áhyggjur af öryggisgæslu forsetans, æðsta embættismanni þjóðarinnar, með einungis einn öryggisvörð með í för er hann ferðast um París þvera og endilanga að næturlagi á vélhjóli sínu til þess að eiga ástarfundi með Gayet. „Lífvörðurinn kemur jafnvel með croissants,“ segir í blaðinu.

Gayet lagði fram kæru í mars vegna orðróms um ástarsamband sem hún ætti í og sagði að um brot á friðhelgi einkalífsins væri að ræða. Gayet, sem er 41 árs, er mjög þekkt leikkona og hefur komið fram í yfir 50 myndum.

Ef satt reynist varðandi ástarsamband Hollande og Gayet er það ekki í fyrsta skipti sem Frakklandsforseti á í ástarsambandi utan hjónabands/sambúðar í embætti. Talið er að Jacques Chirac hafi átt margar ástkonur og forveri hans í embætti forseta Francois Mitterrand, átti dóttur með hjákonu sinni.

Valery Giscard d'Estaing var einnig álitinn mikill kvennamaður, að minnsta kosti að eigin áliti ef marka má nýjar endurminningar hans þar sem hann ýjar að því að hafa átt í ástarsambandi við Díönu prinsessu.

Julie Gayet
Julie Gayet AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert