Sagður hafa myrt klefafélaga sinn

Frá Kongó.
Frá Kongó. AP

Réttarhöld í máli norsks ríkisborgara sem er sakaður um að hafa myrt klefafélaga sinn í fangelsi í Kongó hófust í Kinshasa í gær, að sögn lögmanns mannsins. Joshua French, sem hefur einnig breskan ríkisborgararétt, er sakaður um að hafa myrt vin sinn, Norðmanninn Tjostolv Moland, en lík hans fannst í herfangelsi í Kinshasa þann 18. ágúst á síðasta ári. Maðurinn kom fyrir dóminn í gær.

Að sögn lögmanns mannsins hefur hann sönnunargögn sem sýna fram á að klefafélagi Joshua, Moland, hafi framið sjálfsvíg. Hann segist óttast um andlega líðan Joshua og að hann kjósi einnig að taka sitt eigið líf.

Joshua og Moland, 32 og 31 árs, voru handteknir í Kongó árið 2009 og dæmdir til dauða í júní 2010. Þeir voru fundnir sekir um að hafa myrt bílstjóra bíl sem þeir leigðu. Mennirnir, sem áður voru hermenn, neituðu sök í málinu og segja að bílstjórinn hafi verið myrtur af ræningjum

Yfirvöld í Osló hafa án árangurs reynt að fá mennina framselda til Noregs. Engar aftökur hafa farið fram í Kongó síðan Joseph Kabila, forseti landsins, til kom til valda árið 2001. Þá hafa dauðadómar af og til verið mildaðir í lífstíðardóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert