Sambýliskona Hollande á spítala

Francois Hollande ásamt kærustu sinni Valérie Trierweile.
Francois Hollande ásamt kærustu sinni Valérie Trierweile. AFP

Blaðamaðurinn Valérie Trierweile og sambýliskona Francois Hollande, forseta Frakklands, hefur verið lögð inn á sjúkrahús. Á föstudaginn birti tímaritið Closer frétt þar sem kom fram að hann ætti í ástarsambandi við leikkonuna Julie Gayet.

Aðstoðarmaður Trierweile segir að hún hafi verið lögð inn til hvíldar og mun hún einnig gangast undir rannsóknir. Gert er ráð fyrir því að hún fái að yfirgefa sjúkrahúsið á morgun.

Mikill þrýstingur er á Francois Hollande, forseta Frakklands, að gera hreint fyrir sínum dyrum vegna frásagnar tímaritsins Closer um ástarsamband hans og leikkonunnar Julie Gayet. Ekkert hefur heyrst frá sambýliskonu hans, Valérie Trierweiler, varðandi fréttirnar.

Forsetinn mun halda mikilvæga pólitíska ræðu varðandi efnahagsmálin á þriðjudag og ef ekkert hefur skýrst varðandi það hvort frásögn Closer sé sönn eður ei fyrir þann tíma má búast við að pólitískur boðskapur forsetans fari fyrir ofan garð og neðan hjá frönsku þjóðinni.

Frétt mbl.is: Forsetinn á flandri að næturlagi

Frétt mbl.is: Þrýst á Hollande að upplýsa þjóðina


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert